Kvennalandsliðið í handknattleik hefur fengið undanþágu Heilbrigðisráðuneytisins til hefðbundinna handknattleiksæfinga frá og með morgundeginum og verður ekki beðið boðanna. Kallað verður til fyrstu æfingar strax á morgun.
Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, staðfesti þetta í samtali við handbolta.is í kvöld. Heilbrigðisráðuneytið hafnaði á hinn bóginn ósk HSÍ um undanþágu til æfinga meistaraflokksliða í tveimur efstu deildum. Ljóst er að meistaraflokksliðin verða áfram að sæta sömu takmörkunum og þau hafa gert síðustu rúmu viku.
Fyrsta æfing á morgun
Kvennalandsliðið lætur til skarar skríða á morgun við undirbúning sinn fyrir leikina tvo við Slóvena í undankeppni HM sem fram eiga að fara 16. og 21. apríl, að heiman og heima. Fyrsta æfing landsliðsins fer fram á morgun. Tilkynnt verði um val á landsliðshópnum í fyrramálið, að sögn Róberts.
Allt lagt í sölurnar
Heimilt er samkvæmt reglugerð að veita undanþágu til æfinga fjölmennari hópa vegna alþjóðlegra verkefna sem leikirnir við Slóvena svo sannarlega eru. Róbert segir að nauðsynlegt sé að koma leikmönnum kvennalandsliðsins af stað sem fyrst enda eru leikirnir við Slóvena afar mikilvægir þar sem undir er þátttökuréttur á heimsmeistaramótinu sem fram fer í desember. Allt verði lagt í sölurnar til þess að búa landsliðið eins vel undir leikina og kostur er enda rói allir í eina átt að sama markmiði.
„Það von okkar að aðildarfélögin taki vel í þetta en nauðsynlegt er fyrir landsliðið að hefja æfingar sem allra fyrst til haga undirbúningi sem best fyrir þessa gríðarmikilvægu leiki,“ sagði Róbert við handbolta.is.
Strangar reglur
Róbert sagði ennfremur að afar strangar reglur ríktu um æfingar landsliðsins. Reglurnar þekkir hann og hans fólk í þaula enda fékk karlalandsliðið undanþágu til æfinga og keppni í nóvember fyrir undankeppni EM og aftur í janúar í aðdraganda heimsmeistaramótsins.