Sigríður Hauksdóttir, landsliðskona í handknattleik, tekur ekki þátt í fyrstu leikjum HK á keppnistímabilinu vegna þrálátra meiðsli í öxl sem ekki hefur tekist að vinna bug á. Sigríður hefur ekkert tekið þátt í leikjum HK á undirbúningstímabilinu.
„Öxlin hefur verið til vandræða frá síðasta vetri. Ég fór í sterasprautu í sumar sem virðist ekki hafa virkað. Núna bíð ég eftir að komast til sérfræðings að láta kanna þetta betur og hvert framhaldið verður,“ sagði Sigríður við handbolta.is í dag.
„Ég verð að minnsta kosti ekkert með til að byrja með,“ sagði Sigríður en skarð er fyrir skildi í fjarveru hennar þar sem Sigríður er ein reynslumesta handknattleikskona HK-liðsins um þessar mundir.
Auk þess að vera burðarás í HK-liðinu þá hefur Sigríður verið aðal vinstri hornamaður landsliðsins undanfarin þrjú ár. Vegna meiðslana ríkir óvissa um þátttöku Sigríðar í tveimur fyrstu leikjum íslenska landsliðsins í undankeppni EM sem fram fara 7. og 10. október gegn Svíum ytra og Serbíu í Schenkerhöllinni á Ásvöllum.
HK hefur keppnistímabilið án Sigríðar með því að taka móti Val í 16-liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í Kórnum á föstudaginn klukkan 20.30.