- Auglýsing -
- Auglýsing -

Landsliðsþjálfarinn er á ferðinni um Þýskaland

Snorri Steinn Guðjónsson hittir landsliðsmenn í Þýskalandi þessa dagana. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla eru á ferð um Þýskaland þessa dagana þar sem fundar með nokkrum landsliðsmönnum sem leik með þýskum félagsliðum.

„Ég var meðal annars í Magdeburg í gærkvöld á Evrópuleiknum við Veszprém og talaði við Íslendingana sem leika með liðinu en því miður var Bjarki ekki með Veszprém,“ sagði Snorri Steinn sem kominn var til Kassel þegar handbolti.is náði af honum tali í hádeginu.


Snorri Steinn verður á meðal áhorfenda á viðureign MT Melsungen og Stuttgart í kvöld og reiknar með að setjast niður og ræða við Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson leikmenn Melsungen á morgun. Til stóð að landsliðsþjálfarinn færi einnig á leik með Rhein-Nekcar Löwen en af því verður ekki að þessu sinni.

„Ég vil reyna að hitta sem flesta leikmenn og vera í góðu sambandi við þá áður en kemur að fyrstu æfingu. Í næsta mánuði fer ég til Frakklands og hitti þá sem þar leika,“ sagði Snorri Steinn ennfremur og bætir við að þessar ferðir hafi verið í áætlunum frá því að hann tók við starfi landsliðsþjálfara 1. júní.

Rúmur mánuður

Rúmur mánuður er þangað til Snorri Steinn velur sinn fyrsta landsliðshóp sem kemur saman til æfinga hér á landi mánudaginn 30. október. Valið verður opinberað nokkrum dögum áður.

Fyrstu landsleikirnir undir stjórn Snorra Steins verða nokkrum dögum síðar hér heima gegn færeyska landsliðinu.

Finnur fyrir fiðringi

„Það er ekki laust við að kominn sé fiðringur í mann fyrir fyrsta verkefnið. Tíminn frá því í vor hefur liðið ótrúlega hratt enda hef ég haft nóg að gera við undirbúning. Svo má ekki gleyma því að það tekur sinn tíma að fylgjast með öllum þeim leikmönnum sem eru á radarnum því maður verður að vera undir allt búinn. Það er sannarlega í mörg horn að líta,“ sagði Snorri Steinn ennfremur.

Fyrsta æfing 26. desember

Eftir æfinga- og leikjavikuna í lok október og í byrjun nóvember kemur landsliðið ekki aftur saman fyrr en í lok desember. Þá hefst undirbúningur fyrir Evrópumótið í Þýskalandi. „Ég reikna með að fyrsta æfing verði á öðrum degi jóla,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari.

Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á EM verður við Serba 12. janúar í Ólympíuhöllinni í München. Eftir það taka við leikir gegn Svartfellingum og Ungverjum 14. og 16. janúar.

Samstarfsmaður Snorra Stein við þjálfun og stjórn landsliðsins verður Arnór Atlason.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -