Kvennalið ÍBV fer til Spánar síðdegis í dag en á morgun og á sunnudag standa fyrir dyrum tveir leiki í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik gegn Costa del Sol Málaga. Millilent verður í Barcelona áður en áfram verður farið til Málaga hvar komið verður á leiðarenda upp úr miðnætti.
Leikirnir hefjast klukkan 17 báða dagana í Polideportivo Ciudad Jardin, íþróttahöll Málagaliðsins. Ekki liggur fyrir hvort leikjunum verður sjónvarpað eða streymt. Berist upplýsingar verður greint frá þeim á handbolta.is.
Costa del Sol Málaga vann Evrópubikarkeppnina í vor sem leið og á þar með titil að verja. Liðið er í fjórða sæti spænsku 1. deildarinnar um þessar mundir, sjö stigum á eftir efsta liðinu Bera Bera frá San Sebastián.
Málagaliðið er aðeins einu stigi fyrir ofan Elche frá Alicante sem vann KA/Þór naumlega í tveimur leikjum ytra í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í haust.
ÍBV hefur farið í gegnum þrjár umferðir í keppninni til þessa. Á þeirri leið hefur ÍBV unnið tvö grísk lið, PAOK og Panorama, og síðast Sokol Pisek frá Tékklandi í byrjun síðasta mánaðar. Fjórir leikir af sex til þessa hafa farið fram í Vestmannaeyjum.
- Auglýsing -