Rúnar Kárason, stórskytta hjá Ribe-Esbjerg, var valinn leikmaður mánaðarins í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Það eru stjórnendur deildarkeppninnar sem standa fyrir valinu. Við það er horft til ýmissa tölfræðiþátta í leikjum liðins mánaðar. Rúnar var í tvígang í liði umferðarinnar í síðasta mánuði, eftir 12. og 13. umferð.
Rúnar fékk viðurkenninguna afhenta í fyrrakvöld fyrir leik Ribe-Esbjerg og Kolding í úrvalsdeildinni.
Í rökstuðningi fyrir valinu segir m.a. að Rúnar hafi skoraði 23 mörk í þremur leikjum í 27 tilraunum. Hann átti níu stoðsendingar og vann tvö vítaköst. Nú um stundir er Rúnar í þriðja sæti yfir þá sem hlotið hafa hæsta heildareinkunn fyrir frammistöðu sína í leikjum tímabilsins. Rúnar er einnig í þriðja sæti yfir þá sem hafa átt flestar stoðsendingar og sjöundi markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar.