- Auglýsing -
- Auglýsing -

Leikmönnum Fram féll allur ketill í eld – Haukar gengu á lagið

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Framarar fóru afar illa að ráði sínu í kvöld gegn baráttuglöðum leikmönnum Hauka í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum Olísdeildar kvenna. Segja má að leikmönnum Fram hafi fallið allur ketill í eld á sama tíma og Haukar gengu á lagið.

Framliðið skoraði aðeins eitt mark síðustu 10 mínúturnar og ekkert í tíu mínútna framlengingu. Haukar nýttu sér ráðaleysi Framarar, fyrst til að jafna og síðan til þess að vinna leikinn í framlengingu, 27:23. Haukar tóku þar með forystu í einvíginu. Leikurinn fór fram í Lambhagahöll Fram í Úlfarsárdal.

Önnur viðureign liðanna fer fram á Ásvöllum á föstudagskvöld. Flautað verður til leiks klukkan 18.

Algjört hrun varð í sóknarleik Fram á lokakaflanum. Segja má að allt hafi farið í flækju. Leikmenn komu vart skotum á mark og þau fáu sem rötuðu í átt að markinu ollu sjaldnast usla. Það var hreint með ólíkindum að verða vitni að þessu.

Lena Margrét Valdimarsdóttir kom Fram þremur mörkum yfir 22:19 þegar tíu mínútur voru eftir að reglubundnum leiktíma. Hún var aftur á ferðinni, 23:20, þegar hálf þriðja mínúta var eftir. Þær 180 sekúndur sem voru eftir var Framliðið ráðalaust í sókninni og kom vart skotum að. Sonja Lind Sigsteinsdóttir vann vítakast á síðustu sekúndu venjulegs leiktíma. Elín Klara Þorkelsdóttir jafnaði metin fyrir Hauka úr vítakastinu, 23:23.

Framlengingin var síðan eign Hauka sem komust fljótlega yfir og skoruðu alls fjögur mörk meðan Framliðið var áfram í basli og virtist hafa tapað sjálfstraustinu.

Mörk Fram: Harpa María Friðgeirsdóttir 6, Lena Margrét Valdimarsdóttir 5/2, Steinunn Björnsdóttir 4, Alfa Brá Hagalín 3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 2, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 1, Kristrún Steinþórsdóttir 1, Elna Ólöf Guðjónsdóttir 1.
Varin skot: Andrea Gunnlaugsdóttir 11, 39,3% – Ethel Gyða Bjarnasen 2, 16,7%.

Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 8/5, Inga Dís Jóhannsdóttir 5, Birta Lind Jóhannsdóttir 5, Ragnheiður Ragnarsdóttir 3, Sara Katrín Gunnarsdóttir 3, Alexandra Líf Arnarsdóttir 2, Sara Odden 1.
Varin skot: Margrét Einarsdóttir 6/1, 25% – Elísa Helga Sigurðardóttir 6, 54,5%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -