- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Leitar logandi ljósi að markverði

Guðmundur Helgi Pálsson og leikmenn Aftureldingar náðu að halda í við Hauka í fyrri hálfleik. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

„Ég hef nánast talað við alla markverði á landinu en því miður hefur það ekki borið árangur,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Olísdeildarliðs Aftureldingar í handknattleik kvenna en hann og forráðamenn liðsins leita logandi ljósi að markverði til lengri eða skemmri tíma. Ekkert hefur hlaupið á snærið ennþá og segir Guðmundur leitina vera erfiða.


„Það er og hefur verið hörgull á markvörðum í kvennahandboltanum til viðbótar við að sumir vilja frekar leika með ungmennaliðum en að spreyta sig í Olísdeildinni,“ sagði Guðmundur Helgi sem hefur alla klær úti við leitina.

Eva Dís Sigurðardóttir markvörður er úr leik um tíma. Mynd/Raggi Óla


Markvörðurinn efnilegi Eva Dís Sigurðardóttir, sem valin var í æfingahóp landsliðsins snemma á árinu, er frá keppni vegna höfuðhöggs. Einnig meiddist hún í leik við Val fyrir um viku auk þess sem veikindi hafa þar á ofan sett strik í reikninginn. „Að sjálfsögðu tökum við ekki neina áhættu með Evu Dís. Hún fær þann tíma sem þarf til að að jafna sig,“ sagði Guðmundur Helgi.


Afturelding tefldi fram markverði úr fjórða flokki í leik við ÍBV á föstudaginn auk þess sem skyttan Susan Ines Gamboa stóð í markinu verulegan hluta leiksins og gekk reyndar vel. Hún hefur hinsvegar aldrei æft eða leikið í marki en komst vel frá sínu við erfiðar aðstæður.

Susan Ines Gamboa hljóp í skarðið í marki Aftureldingar gegn ÍBV. Hér er hún á auðum sjó í sinni hefðbundnu stöðu í leik við Val á dögunum. Mynd/Raggi Óla


Guðmundur segist ekki hafa gefist upp á leitinni. Það sé lán í óláni að næsti leikur Aftureldingar sé ekki á dagskrá fyrr en 16. október. Á meðan gefist tími til að velta við hverjum steini í leit að markverði sem vonandi beri árangur fyrr en síðar.

Óhætt er að benda áhugasömum að setja sig í samband við Guðmund Helga Pálsson þjálfara Aftureldingar telji þeir sig getað hlaupið undir bagga um lengri eða skemmri tíma.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -