- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Lekinn var okkar ólán“

Sergey Shishkarev, forseti rússneska handknattleikssambandsins t.h. ásamt vini sínum Evgeni Trefilov, fyrrverandi landsliðsþjálfara kvenna.
- Auglýsing -

„Okkar ólán var að það lak út að við værum að ræða við Alfreð Gíslason. Auðvitað lögðu menn saman tvo og tvo og fengu út fjóra þegar Alfreð Gíslason var kominn til Moskvu. Menn áttuðu sig á að hann var ekki þar í skemmtiferð eða til að fylgjast með leikjum í rússnesku deildarkeppninni,“ segir Sergey Shishkarev, forseti rússneska handknattleikssambandsins í samtali við  rússneska fréttamiðilinn Championat á dögunum.

Shishkarev segir Alfreð hafa verið langefstan á blaði hjá rússneska handknattleikssambandinu snemma árs þegar leit stóð yfir að þjálfara fyrir rússneska karlalandsliðið. 

„Um leið og Alfreð lenti í Þýskalandi eftir heimsókn til okkur þá slógu forráðamenn þýska handknattleikssambandsins á þráðinn til hans og buðu honum að taka við þýska landsliðinu. Og það var úr. Hann gekk okkur úr greipum  á elleftu stundu og samdi við þýska sambandið,“ sagði Shishkarev  sem bætir við að Alfreð hafi komið mjög heiðarlega fram við sig og rússneska sambandið. 

„Alfreð kom hreint fram við okkur enda mikill heiðursmaður. Hann sagði okkur strax frá boði þýska sambandsins og því að hann gæti ekki afþakkað það. Ég hef fullkominn skilning á þeirri ákvörðun sem hann tók,“ sagði Shishkarev ennfremur og bætir við að formlegar viðræður hafi verið hafnar við Alfreð þegar Þjóðverjar komu til sögunnar.

Góður fyrir sinn hatt

Úr varð að Velimir Petkovic var ráðinn þjálfari rússneska karlalandsliðsins sem mörgum þykir ekki vera þungavigtarráðning. Shishkarev segir hinsvegar að Perkovic sé rétti maðurinn í það sem honum sé ætlað að gera, þ.e. snúa við gengi rússneska karlalandsliðsins sem hefur verið afleitt á síðustu árum, vinna að skipulagsbreytingum í rússneskum handknattleik, einkum við þjálfun yngri leikmanna.

Algjört aga- og einbeitingarleysi

Shishkarev er ómyrkur í máli í garð rússneska landsliðsins sem tók þátt í EM karla 2020 og tapaði öllum þremur leikjum sínum, m.a. steinlá það fyrir íslenska landsliðinu. Hann segir yngri leikmenn hafa verið áhugalausa og alls ekki verið með hugann við þátttökuna í mótinu. Aga- og einbeitingarleysið hafi verið algjört. Menn hafi jafnvel látið sér í léttu rúmi liggja að tapa leikjum og haft meiri áhuga á að sinna símaskilaboðum en að hlusta á það sem þjálfarinn hafi haft fram að færa. Liðsheildin var slök og hópurinn margskiptur. Leikmenn sem leika með Vardar í Makedóníu, sem áttu að vera hryggjarstykki liðsins, hafi alls ekki blandast saman við yngri leikmenn frá félögum í Rússlandi. Öskrað hafi verið á leikmenn og lítið gert úr sumum þeirra.

Frammistaðan á EM2020 hafi hinsvegar ekki þurft að koma á óvart því hún væri rökrétt framhaldi af slöku gengi karlalandsliðsins árum saman en m.a. þá vann það sér ekki inn þátttökurétt á HM 2017. Nú þurfi að stokka upp spilin og gjörbreyta hugsunarhætti eftir mörg mögur ár, segir Shishkarev sem hefur verið forseti rússneska handknattleikssambandsins í fimm ár. Á þeim tíma hefur velta sambandsins meira en tvöfaldast sem á að auðvelda reksturinn.

Fall á lyfjaprófi var áfall

Rússneska kvennalandsliðið hefur hinsvegar haldið stöðu sinni sem eitt það besta í heiminum þótt mjög hafi hallað á verri veginn hjá körlunum. Rússnesk félagslið í kvennaflokki eru á meðal þeirra fremstu í Evrópu. Landsliðið varð Ólympíumeistari 2016, vann silfur á EM 2018 og brons á HM á síðasta ári. Fall þriggja leikmanna U19 ára landsliðs kvenna á lyfjaprófi á HM 2017 hafi hinsvegar verið mikið áfall. Það mál hafi verið rakið til læknis sem hafi fengið að súpa sitt seyði. Vel hafi verið haldið utan stúlkurnar sem hafi komist á beinu brautina og blómstri nú með félagsliðum sínum og landsliðinu.

Þarf að gera stórátak

Shishkarev segist leggja höfuðáherslu á að markvisst verði unnið að því að byggja upp handknattleiksíþróttina í Rússlandi með því m.a. að gjörbylta æfingaaðstöðu barna og unglinga og gera stórátak í fjölgun þjálfara og menntun þeirra. Víst sé að nægur efniviður er fyrir hendi í Rússlandi, bæði af áhugasömum og hæfileikaríkum börnum og verðandi þjálfurum.

Shishkarev, sem er 52 ára gamall, er á meðal auðugustu manna Rússlands og hefur rekið fyrirtæki sitt Delo, sem er flutningafyrirtæki, í nærri þrjá áratugi með glæsilegum árangri. Shishkarev  sat um langt árabil á rússneska þinginu og gætir áhrifa hans víða. Hann hefur fjármagnað að stærstum hluta kvenna- og karlalið CSKA Mosvku síðustu árin og hyggst byggja glæsilega æfinga- og keppnishöll fyir liðið í Moskvu. Talið er að Shishkarev hafi á síðustu árum fjárfest fyrir um 30 milljónir dollara í rússneskum handknattleik. Það er uþb að jafnvirði ríflega fjögurra milljarða króna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -