- Auglýsing -
- Auglýsing -

Lena Margrét skaut ÍR-inga í kaf

Lena Margrét Valdimarsdóttir er komin í Frampeysuna á nýjan leik. Mynd/Fram
- Auglýsing -

Framarar fögnuðu sínum fyrsta sigri í Olísdeild kvenna í handknattleik í dag. Framarar lögðu nýliða ÍR, 28:21, í Úlfarsárdal eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 15:12. Lena Margrét Valdimarsdóttir hélt upp á sinn fyrsta heimaleik með Fram í rúm tvö ár með sýningu. Hún skoraði 13 mörk og réðu leikmenn ÍR ekkert við hana.


ÍR-ingar voru í humátt á eftir Fram allan fyrri hálfleikinn. Sjaldan munaði nema einu til þremur mörkum. Sóknarleikur ÍR var fremur einhæfur og snerist mest um Söru Dögg Hjaltadóttur. Aðrir leikmenn héldu sér að mestu til hlés.

Fljótlega í fyrri hálfleik stakk Fram-liðið af. Varnarleikurinn var mjög góður og komust leikmenn ÍR lítt áfram. Þess utan varð Sara Dögg Hjaltadóttir að sitja yfir í þrjár sóknir eftir að hafa hlotið aðhlynningu á leikvelli. Fram skoraði sjö mörk í röð á rúmlega 10 mínútna kafla. Staðan breyttist úr 16:14 í 23:14. Eftir það átti ÍR-liðið ekki möguleika á að koma til baka.

Sem fyrr segir var sóknarleikur ÍR alltof einhæfur. Fleiri leikmenn verða að láta að sér kveða en að þessu sinni.
Mikið breytt Fram-lið lofar góðu með mörgum spennandi leikmönnum þótt vafalaust verði liðið aðeins á eftir Val og ÍBV á þessu keppnistímabili. Endurkoma Lenu Margrétar í Frambúninginn er sannkallaður hvalreki.

Mörk Fram: Lena Margrét Valdimarsdóttir 13/4, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 4, Svala Júlía Gunnarsdóttir 4, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Alfa Brá Hagalín 3, Harpa María Friðgeirsdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 7/1, 26,9% – Andrea Gunnlaugsdóttir 0.

Mörk ÍR: Sara Dögg Hjaltadóttir 11/3, Karen Tinna Demian 2/2, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 2, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 2, Hanna Karen Ólafsdóttir 2, Anna María Aðalsteinsdóttir 1, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 1.
Varin skot: Ísabella Schöbel Björnsdóttir 6, 20,7%.

Leikjadagskrá og staðan í Olísdeildum.

Handbolti.is. fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -