- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Lítil röskun enn í Sviss

Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari Kadetten Schaffhausen í Sviss. Mynd/Kadetten Schaffhausen
- Auglýsing -

Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari handknattleiksliðsins Kadetten Schaffhausen, segir ástandið í kringum kórónuveiruna hafi verið nokkuð stöðugt þar sem hann býr með fjölskyldu sinni í Sviss. Róðurinn virðist þó vera eitthvað að þyngjast vegna þess að frá og með deginum í dag verður tekin upp grímuskylda utandyra og þar sem fólk kemur saman s.s. í verslunum.


Æfingar Kadetten-liðsins fara nokkuð eðlilega fram og sama má segja um kappleiki en vissulega verði að huga vel að öllum fjarlægðamörkum eins og langt og hægt sé að ganga. Einnig sé gætt vel að sóttvörnum meðal áhorfenda á leikjum.

Lítil röskun hefur orðið á keppni í efstu deild karla eða í bikarkeppninni fram til þessa. Það kann þó að breytast vegna þess að upp kom smit hjá handknattleiksliði Zürich í vikunni og var leikjum liðsins frestað í kjölfarið.

Allir á leið í veirupróf


Eftir helgina verða allir leikmenn Kadetten, þjálfarar og aðrir starfsmenn að gangast undir kórónuveirupróf áður en leikið verður við danska liðið GOG í 1. umferð D-riðils Evrópudeildarinnar. Handknattleikssamband Evrópu skyldar öll lið sem taka þátt í Evrópukeppni félagsliða til þess að fara í kórónuveirupróf fyrir leiki. Hefur sá háttur verið á allt keppnistímabilið.


„Maður verður bara að sjá til hvernig málin þróast og taka þátt í þeim aðgerðum sem skipað er fyrir um,” sagði Aðalsteinn við handbolta.is.


Kadetten vann Suhr Aarau, 26:17, í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar á heimavelli. Eftir tap fyrir sama liði nokkrum dögum áður í deildinni sagði Aðalsteinn sigurinn hafa verið mikinn létti. „Sigurinn var góður fyrir sálartetrið eftir síðustu tvo leiki við Suhr Aarau. Nú vorum við að fá leikmenn til baka úr meiðslum og erum þéttari fyrir vikið,” segir Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari Kadetten Schaffhausen í Sviss.

Næsti leikur Kadetten verður gegn Bern á útivelli á morgun. Bern er í fimmta sæti deildarinnar með níu stig eftir átta leiki. Aðalsteinn og félagar eru í öðru sæti með 12 stig, einu stigi á eftir HC Kriens sem trónir á toppnum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -