- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Maður bara bíður og vonar

- Auglýsing -

„Maður bara bíður og vonar eftir að komast sem fyrst aftur inn á parketið,“ sagði Axel Sveinsson, aðstoðarþjálfari handknattleiksliðs Harðar á Ísafirði, sem situr í sömu súpu og aðrir þjálfarar og leikmenn liða í meistaraflokki karla og kvenna, að mega hvorki æfa almennilega né leika handknattleik.

Síðasti leikur Harðar-liðsins, sem er nýliði í Grill 66-deild karla, var 4. október gegn ungmennaliði Fram á heimavelli. Það var jafnframt fyrsti sigur Harðarliðsins í deildinni.

Nýttu tímann vel

„Við tökum glaðir á móti allri rýmkun á æfingum þegar að því kemur. Þótt ekki væri annað en mega fara inn í íþróttahús aftur og kasta bolta í vegg. Allt er betra en ekkert,“ sagði Axel. Harðarmenn máttu æfa lengur en þeir sem voru á höfuðborgarsvæðinu. Axel sagði þann tíma hafa verið vel nýttan m.a. til að koma nýjum leikmönnum inn í leik liðsins en Lettarnir Raivis Gorbunovs og Guntis Pilpuks komu vestur skömmu áður en Íslandsmótið hófst eftir miðjan september.

Höldum mönnum við efnið

„Við máttum æfa lengur hér fyrir vestan en þeir fyrir sunnan og lögðum þá út í annað stutt undirbúningstímabil. Þá reiknuðum við með að deildin færi fljótlega aftur af stað en sú varð ekki raunin. Síðustu vikur hafa strákarnir fengið sendar æfingar. Þeir sjá svo um að halda sér við. Við erum bara eins og aðrir að reyna allt til þess að halda mönnum við efnið en vissulega er erfitt að fylgjast með öllum. Einnig höfum við reynt að hittast á tölvufundum og bera saman bækur okkar,“ segir Axel sem eins aðrir bíður spenntur eftir að mega hefja æfingar í sal á nýjan leik.

Minni röskun fyrir Grill-deildina

Axel segist ekki reikna með að keppni hefjist aftur í Grill 66-deildinni fyrr en í upphafi nýs árs. „Það væri kannski fínt fyrir okkur að fá bikarleik í desember og koma bikarkeppninni frá. Annars hafa þessar tafir minni áhrif á liðin í Grilldeildinni þar sem leikir eru færri en í Olísdeildinni. Við eigum að geta klárað deildarkeppnina í vor ef veiran raskar ekki skipulaginu aftur.
En víst er að það verður átak fyrir okkur eins og aðra að komast í gang aftur,“ sagði Axel.

Afþökkuðu sæti í landsliðinu

Lettunum Gorbunovs og Pilpuks var boðið að leika með landsliði Lettlands í undankeppni EM2022 í byrjun nóvember. Báðir afþökkuðu sæti að þessu sinni.

„Þeir hefðu verið lengi frá og þurft að undirgangast sóttkví og hvað eina. Síðan varð ekkert úr leikjunum þegar allt kom til alls. Báðum leikjum Letta í undankeppninni var frestað. Þeir voru víst ekki þeir einu sem afþökkuðu sæti. Menn vildu bara halda sig heima við þessar aðstæður,“ sagði Axel Sveinsson, aðstoðarþjálfari Harðar á Ísafirði í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -