- Auglýsing -
- Auglýsing -

Maður losnar ekki svo auðveldlega við bakteríuna

Axel Stefánsson fyrir miðri mynd á þeim tíma sem hann starfaði fyrir HSÍ. Hér ásamt samstarfsfólki. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Það verður gaman að komast á ný í þjálfun. Maður losnar ekki svo auðveldlega við þá bakteríu sem henni fylgir,“ sagði Axel Stefánsson, handknattleiksþjálfari, í samtali við handbolta.is í gær eftir að hann var ráðinn annar þjálfari norska kvennaliðsins Storhamar sem situr í efsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar. Axel tekur við starfinu 1. júlí.


Axel hefur þjálfað í Noregi um árabil, karla-, og kvennalið, yngri landslið Noregs, verið í þjálfarateymi norska kvennalandsliðsins auk þess að vera þjálfari íslenska kvennalandsliðsins frá 2016 til 2019.

Var alltaf markmið

„Það var allaf markmiðið að taka árshlé frá þjálfun og fara svo af stað aftur en kórónuveiran setti strik í reikninginn. Þess vegna hefur tognað úr þeim tíma sem ég hef verið í öðrum störfum en þjálfun,“ sagði Axel sem hefur verið starfsmaður hjá norska úrvalsdeildarliðinu Elverum í heimabæ sínum síðustu misseri.


„Ég er þar af leiðandi spenntur fyrir að fara aftur í þjálfunina. Storhamar er og hefur verið næst besta lið Noregs síðustu ár. Markmiðið er að gera alvöru atlögu að Vipers á næstu árum. Til þess að eiga þess kost þá er verið að styrkja innviði félagsins og leikmannahópinn.“

Verður aðallega á gólfinu

Í tilkynningu Storhamar í gær þegar greint var frá ráðningu Axels kom fram að Kenneth Gabrielsen, núverandi þjálfari Storhamar, myndi starfa við hlið Axels. „Ég verði meira á gólfinu ef svo má segja en Gabrielsen ætlar að taka við starfi íþróttastjóra félagsins og draga úr þjálfun. Hann verður eitthvað með mér á æfingum en síðan verðum við saman á hliðarlínunni í leikjum.


Við ætlum að reyna þetta í eitt ár og sjá hvernig gengur,“ segir Axel og undirstrikar að umsvif félaga á þessu getustigi er alltaf að vaxa í takt við aukna kröfur. „Það þarf fleiri menn á dekk. Ég þekki Gabrielsen vel frá þeim tíma sem við unnum saman hjá norska handknattleikssambandinu fyrir nokkrum árum. Samstarf okkar hefur legið í loftinu um hríð.”

Þarf ekki að flytja

Einn kostur við að taka að sér starfið hjá Storhamar er sá að sögn Axels að ekki er þörf á að hann flytji búferlum með fjölskylduna. Aðeins er um hálftíma akstur á milli Elverum, þar sem hann býr, og til Hamars þar sem Storhamar hefur bækistöðvar sínar.

„Á þessum tímum er gott að þurfa ekki að flytja um langan veg til þess að komast í þjálfun á nýjan leik. Ég hafði fundið fyrir áhuga annarra liða en starfið hjá Storhamar var það sem mér þótti mest spennandi af öllu,“ sagði Axel sem mætir til starfa í Hamri 1. júlí.

Með landsliðsmenn

Axel segir einn leikmann Storhamar hafa verið í A-landsliði Noregs sem hefur verið eitt það allra besta í Evrópu um langt árabil. Einn leikmaður til viðbótar sem hefur átt sæti í landsliðinu er væntanlegur til liðsins í sumar. Sú hefur glímt við meiðsli en hafi náð góðum bata. „Sex konur úr leikmannahópi Storhamar hafa leikið með B-landsliðinu. Svo eigum við von á systur Veroniku Christiansen, landsliðskonu, inn í hópinn okkar undir árslok þegar hún hefur lokið fæðingarorlofi. Hún hefur einnig átt sæti í landsliðinu.“


Talsvert gott starf er í yngri flokkum Storhamar. Þar af leiðir er nokkur hópur leikmanna liðsins uppaldir hjá félaginu. Axel segir að mikil áhersla sé lögð á yngri flokka starfið hjá félaginu og að það skili sterkum leikmönnum upp í meistaraflokk.

Mikill stuðningur frá ríkinu

Norska ríkið hefur stutt afar vel við bakið á íþróttaliðum landsliðsins í faraldrinum sem nú gengur yfir. Af þessu leiður að sögn Axels að félögin hafi ekki tapað miklum fjármunum. Það gerir að verkum að norsk handknattleikslið standa vel að vígi í keppni um leikmenn enda mun vera talsvert um það um þessar mundir að sterkir leikmenn leiti til Noregs frá félagsliðum sunnar í Evrópu.


Axel segir að kórónuveiran hafi ekki herjað af miklum krafti á því svæði sem hann býr á í Noregi. Veiran hafi aðallega leikið fólk grátt á svæðinu í kringum höfuðborgina, Ósló, þótt vissulega hafi hennar orðið vart í hans heimabæ og héraði. Einnig hafi stærri bæir margir orðið illa úti. „Vonandi tekst að koma samfélaginu á skrið aftur í sumar,“ sagði Axel Stefánsson, handknattleiksþjálfari í Noregi, í samtali við handbolta.is í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -