Það kom mörgum á óvart í dag þegar Þórsarar endurheimtu fyrirliðann Valþór Atla Guðrúnarson fyrir leikinn við Gróttu í Olísdeildinni í handknattleik. Valþór Atli fór úr axlarlið í viðureign Vals og Þórs 25. janúar og óttast var að hann yrði lengi frá keppni.
„Það eru enn einhverjar bólgur í öxlinni en hreyfigetan er góð þótt það vanti aðeins upp á styrkinn,“ segir Valþór Atli í samtali við akureyri.net í kvöld þar sem hann virðist hvergi banginn að láta reyna á hvort hann geti ekki hjálpað liði sínu á næstunni.
Nánar er hægt að lesa viðtal akureyrar.net við Valþór Atla hér.
Endurkoma hans hafði alltént góð áhrif á samherjana. Þór vann leikinn við Gróttu, 18:17, og hefur þar með fjögur stig í næst neðsta sæti, aðeins stigi á eftir Gróttu þegar níu umferðum er lokið af 22 í Olísdeildinni.