- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mættum eins og stríðsmenn

Martha Hermannsdóttir t.v. lyftir bikarnum í gær ásamt Katrínu Vilhjálmsdóttur. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Hin þrautreynda handknattleikskona Martha Hermannsdóttir hefur gengið í gegnum eitt og annað á löngum handknattleiksferli. Hún varð þrefaldur meistari með KA/Þór á síðasta keppnistímabili og bætti við fjórða titilinum í gær þegar liðið varð bikarmeistari þegar liðið elti uppi eftirlegukind frá síðasta keppnistímabili, Coca Cola-bikarinn, sem varð að skilja eftir á síðustu leiktíð.

Segja má að Martha og samherjar hafi ekki farið erindisleysu suður síðasta árið því þær hafa tekið alla bikara sem þær hafa keppt um með sér norður.

Andri Snær Stefánsson hefur náð aðdáanaverðum árangri í frumraun sinni sem þjálfari meistaraflokksliðs. Undir hans stjórn hefur KA/Þór unnið öll sigurlaun sem eru í boði íslenskum handknattleik. Mynd/HSÍ


Fyrst voru það sigurlaunin fyrir meistarakeppni HSÍ í september í fyrra og síðan bættist deildarmeistarabikarinn í Olísdeildinni við á vormánuðum áður en Íslandsbikarinn sjálfur fór með í farteksinu í júníbyrjun. Í gær voru það sigurlaunin í bikarkeppni HSÍ, Coca Cola-bikarinn sem Martha og stöllur fóru syngjandi sælar og glaðar með í handfarangri heim til Akureyrar.


Martha sagði við handbolta.is í gær eftir að KA/Þór hafði lagt Fram í úrslitaleik Coca Cola-bikarsins að ekkert annað hafi komið til greina.

„Við komum grjótharðar til leiks. Hingað vorum við komnar til þess að vera sem stríðsmenn. Við vorum svo tilbúnar í slaginn frá fyrstu mínútu. Vörnin var geggjuð og markvarslan hjá Mateu var stórkostleg. Þess vegna fengum við mörgum hraðaupphlaup,“ sagði Martha og dró ekki fjöður yfir að KA/Þórsliðið hafði dregið drjúgan lærdóm af tapinu fyrir Fram í meistarakeppni HSÍ fyrir mánuði.

Martha Hermannsdóttir með bikarana tvo, farandbikarinn og eignabikarinn sem KA/Þór fékk fyrir sigur í Coca Cola-bikarnum í gær. Mynd/Alma Skaptadóttir, Akureyri.net

„Við höfum gaman af þessum leik. Okkur vantaði þennan gleðineista þegar við töpuðum fyrir Fram í meistarar meistaranna um daginn. Þá var stress í okkur. Hakan var niðri í bringu, við gleymdu að skemmta okkur sem er eitt okkar helsta gildi, fagna hverju marki og hverri vörn og peppa hverja aðra sama á hverju gengur og ekki gleyma brosinu. Við vorum staðráðnar í að koma hingað til að njóta. Það sást á leik okkar,“ sagði hin þrautareynda Martha sem gaf ekkert eftir í leiknum í gær og lék stórt hlutverk jafnt í vörn sem sókn.


„Við vorum aldrei á þeim buxunum að tapa þessum leik. Ákveðnin var fyrir hendi hjá okkur. Sannarlega ætlaði Framliðið sér einnig að vinna en viljinn virtist vera meiri hjá okkur. Við vorum hungraðri,“ sagði Martha Hermannsdóttir, bikarmeistari með KA/Þór við handbolta.is í gær.

Meiri umfjöllun um úrslitaleik KA/Þórs og Fram:

Frábær byjun.
Þær voru mikið betri.
Bikarinn fer norður.
Textalýsing.

Fögnuður, samstaða hjá bikarmeisturum KA/Þórs. Mynd/HSÍ.
Mynd/HSÍ
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -