„Ég var ekki alveg í rónni í morgun þegar ljóst var að þrír leikmenn voru með magakveisu. Þeir fengu strax lyf við kveisunni og voru orðnir þokkalegir þegar leikinn hófst,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfari 19 ára landsliðs karla í handknattleik um magakveisu sem skaut sér niður í íslenska landsliðshópinn sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu í Kaíró í Egyptalandi.
HM19-’25: Sigurinn var aldrei í hættu
Þrír leikmenn íslenska landsliðsins sem telur 16 pilta voru afar slæmir í morgun og voru tveir þeirra sæmilega leikfærir en sá þriðji var verri og tók því lítið sem ekkert þátt í leiknum.
Heimir sagði afar strangar reglur giltu innan íslenska hópsins varðandi neyslu matvæla í Kaíró. Engu að síður hafi kveisan stungið sér niður sem minnir á að aldrei er of varlega farið.
Því miður algengt
Því miður er algengt að magakveisa herji á þá sem ferðast til Egyptalands. Ekki síst ber að gæta sín á hráu grænmeti og ávöxtum og ferskum ávaxatasafa, sem fyrir kemur að er skolað upp úr vatni eða blandað saman við vatn, sem ekki er e.t.v. það hreinasta sem fyrir finnst. Öll betri hótel eru með hreinstæki á neysluvatni til þess að koma í veg fyrir óæskilegar bakteríur.
„Hótelið er mjög fínt og maturinn er góður svo ég ekkert mjög hræddur hér en það má vara sig á ýmsu sem er í boði utan hótelsins,“ sagði Heimir við handbolta.is
Hefur bitra reynslu
Heimir hefur bitra reynslu af magakveisum innan landsliðshópa. Hann fór með landsliðshóp til keppni í Egyptlandi fyrir mörgum árum. Þá varð magakveisa öllum piltum hópsins til trafala á einhverjum tímapunkti ferðarinnar.
Að þessu sinni er íslenski hópurinn vel birgur af lyfjum til þess að vinna bug á kveisum af þessu tagi þegar þær knýja dyra.
HM19-’25: Annar stórsigur – sæti í milliriðlum er í höfn