- Auglýsing -
- Auglýsing -

Markmiðið er að láta kné fylgja kviði

Björgvin Páll Gústavsson leikur sinn 244. landsleik á morgun. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Planið okkar er að láta kné fylgja kviði eftir frábæran leik á miðvikudaginn. Sýna fram á að við getum haldið gæðum og standard áfram,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður og reyndasti leikmaður íslenska landsliðsins í handknattleik um þessar mundir þegar handbolti.is sló stuttlega á þráðinn til hans til Tallin í dag.


Framundan er er á morgun 244. landsleikur Björgvins Páls þegar íslenska landsliðið mætir landsliði Eistlendinga í Tallin klukkan 16 á morgun í annarri umferð 3. riðils undankeppni Evrópumótsins sem fram fer í Þýskalandi í janúar 2024. Leikurinn hefst klukka 16.10 á morgun, laugardag.

Gísli Þorgeir Kristjánsson lék einkar vel gegn Ísraelsmönnum á miðvikudaginn á Ásvöllum. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Snýst um okkur sjálfa

Eftir 15 marka sigur á Ísrael á Ásvöllum á miðvikudaginn vilja leikmenn íslenska liðsins fylgja sigrinum eftir eins og Björgvin Páll sagði hér að ofan. „Fyrst og síðast snýst þetta um okkur sjálfa. Við viljum ná góðum leik og ég hef fulla trú á að það takist eftir gott ferðalag, fína æfingu og fína fundi hér ytra í aðdraganda leiksins,“ sagði Björgvin Páll ennfremur en íslenska landsliðið kom til Tallin síðdegis í gær.

Svipaðir að getu

Spurður hvort menn reikni með að lið Eistlendinga sér sterkara eða veikara eða þá svipað og það ísraelska svaraði Björgvin Páll því að reiknað væri með að þeir væru svipaðir og Ísraelsmenn að getu.

Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari fylgist einbeittur með. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Meiri breidd og sjö menn í sókn

„Breiddin er kannski meiri hjá Eistlendingunum. Síðan leika þeir mjög mikið með sjö menn í sókn. Það er alltaf erfitt að leika lengi gegn sjö manna sóknarleik. Oft er það happa og glappa hvernig slíkir leikir þróast. Ef okkur tekst ekki að leysa það nógu vel getum við lent í vandræðum því Eistlendingar hafa náð mjög góðum tökum á sjö manna sóknarleik. Þeir eru skynsamir og eru ekki þekktir fyrir að kasta boltanum klaufalega frá sér,“ sagði Björgvin Páll og undirstrikaði að íslenska liðið hafi oft leikið gegn liðum sem leggja áherslu á sjö manna sóknarleik og tekist að leysa þá þraut farsællega.

Erum stríðsmenn á vellinum

„Við mætum bara brattir enda erum við mjög góðir í handbolta, jafnt í vörn sem sókn, og verðum bara að nýta kosti okkar eins og frekast er kostur. Meðal styrkleika okkar er hraðinn. Við erum stríðsmenn þegar komið er inn á leikvöllinn. Menn leggja allt sem þeir eiga í hvern leik. Svo er Gummi góður að halda mönnum einbeittum og á tánum,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson og átti þar við Guðmund Þórð Guðmundsson þjálfarann þrautreynda.

Íslenska landsliðið í handknattleik fyrir viðureignina við Ísrael. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -