- Auglýsing -
- Auglýsing -

Markverðir fá aukna vernd – miðjuhringur tekinn upp

Skýrt er í nýjum reglum hvenær skal vísa leikmanni af leikvelli fyrir að kasta í höfuð markvarðar. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Stóru fréttirnar af fundinum eru fjórar reglubreytingar sem taka gildi í sumar sem hafa verið töluvert í umræðunni síðustu vikur og mánuði,“ sagði Kristján Gaukur Kristjánsson nýkjörinn formaður dómaranefndar HSÍ í samtali við handbolta.is.

Fyrsta embættisverk Kristjáns Gauks, ef svo má segja, var að sitja á dögunum kynningarfund Handknattleikssambands Evrópu, EHF, í Vínarborg, um væntanlega reglubreytingar í handknattleik sem taka gildi 1. júlí í sumar. Með Kristjáni Gauki í för var Magnús Kári Jónsson, handknattleiksdómari og starfsmaður dómaranefndar. 

Breytingarnar á reglunum er ýtarlegar tíundaðar í ramma neðst í þessari grein. 

Vernd markvarða

„Stærstu breytingarnar snúa að aukinni vernd markavarða fyrir skotum í höfuðið. Við bætist að sé skotið í höfuð markmanns í opnum leik úr hindrunarlausu skoti þar sem enginn varnarmaður er á milli skotmanns og markmanns, þá skal refsa fyrir það með tveggja mínútna brottvísun. Fleiri atriði koma þó inni þessa reglu,“ segir Kristján Gaukur. 

Handbolti án harpix

„Meðal  annarra breytinga er harpixlausi boltinn sem margir eru á móti. Hann verður fyrst prófaður á HM kvenna U18 ára í sumar. Ef reynslan verður góð þá grunar mig að stutt verði í að reynt verði að leika með þessum bolta á heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum, svo dæmi sé tekið.  Mig býður í grun að það getið orðið stríð í kringum boltann. 

Ég nefni sem dæmi ef þriðja heims lönd fara að sleppa harpxinu og spara sér þar með mikinn pening eykst þunginn á að boltinn verði meira notaður en menn grunar nú í upphafi. Ekki verður hægt að bjóða þeim upp að leika með harpixi ef þau æfa og keppa heimafyrir án þess,“ segir Kristján Gaukur og nefnir einnig stjórnendur íþróttahúsa bæði hér á landi og annarstaðar þar sem klístrið er þyrnir í augum margra. 

Miðjuhringur tekinn upp

Þriðja breytingin snýr að miðjuhring sem tekinn verður upp á leikvellinum, svokallað frumkastsvæði. Hringurinn verður fjórar metra þvermáli er settur við miðlínu og verður gerður að skyldu í öllu leikjum í atvinnumannadeildum. Hringurinn verður þar af leiðandi ekki skylda hér á landi. Kristján Gaukur sagðist samt sem áður ekki reikna með öðru en að hann verði tekinn upp hér á landi. 

Dómarar jafnt sem áhorfendur kynnast breyttum reglum fyrir næsta keppnistímabil. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

„Heimilt verður að flauta frumkastið á um leið og annar fótur sóknarmanns verður kominn inn í hringinn en hinsvegar má ekki kasta boltanum frá sér fyrr en báðir fætur verða innan hringsins. Um þetta voru talsverðar umræður á fundinum,“ segir Kristján Gaukur.

Árekstur við körfuknattleik?

Körfuboltahringurinn á miðjum vellinum er 3,6 metrar í þvermál og þar með er ljóst að til árekstra kemur á milli í handknattleiks og körfuknattleiks í þeim íþróttahúsum þar sem keppt er í báðum greinum. 


„Danir ætla að leysa málið þannig að útbúnar verða auglýsingar sem eru jafnstórar hringnum. Þær verða þá límdar niður fyrir leik og teknar upp að honum loknum. Við verðum einnig að hafa þetta í föstum skorðum hjá okkur frá fyrsta degi í öllum keppnishúsum meistaraflokka,“ sagði Kristján Gaukur sem telur yfirgnæfandi líkur á að miðjuhringurinn verði tekinn upp hér á landi, alltént í keppni í meistaraflokkum. 

Færri sendingar fyrir leiktöf

Fjórða breytingin snýr að leikleysu en frá og með næsta keppnistímabili fækkar sendingum úr sex í fjórar áður en leikleysa er dæmd. 

Þessa dagana vinnur Kristján Gaukur hörðum höndum að því að uppfæra íslensku útgáfu reglubókarinnar sem verður eingöngu fáanleg í rafrænni útgáfu og gefin út innan tíðar.

Jónas Elíasson og félagar í dómarastétt verða áfram með gul spjöld í brjóstvasanum. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Ör þróun

Kristján Gaukur segir að ennfremur sé ör þróun í tækjabúnaði sem auðveldi dómurum stöfin. M.a. hafi fyrirtæki sem þróa talstöðvabúnað fyrir dómara í samvinnu við EHF og IHF verið með fyrirlestur á fundinum. M.a. kom fram að unnið sé að því auðvelda tengingu búnaðarins við upptökur frá leikjum í rauntíma svo dæmi sé tekið. „Þarna komu fram fimm eða sex ný atriði sem snerta tæknibúnað dómara sem eru í þróun eins og svo margt annað,“ sagði Kristján Gaukur Kristjánsson nýkjörinn formaður dómaranefndar HSÍ.

Leikreglubreytingar í handbolta 1. júlí 2022

a) Klísturslaus bolti er leyfður á IHF mótum, og verður hann fyrst prófaður í sumar á heimsmeistaramóti U18 kvenna.

b) Við leikleysu fækkar hámarksfjölda sendinga úr 6 niður í 4.

c) Skot í höfuð markmanns (eða varnarmanns í aukakasti):

Áfram verður gefið rautt spjald við skot í höfuð markmanns í vítakasti og við skot í höfuð varnarmanns í aukakasti ef ekki er reynt að verjast með höfði (höfuð ekki fært í kaststefnu boltans til að reyna að verja hann þannig).

Við bætist að sé skotið í höfuð markmanns í opnum leik úr hindrunarlausu skoti þar sem enginn varnarmaður er á milli skotmanns og markmanns, þá skal refsa fyrir það með 2mín. brottvísun.

Sama á við og að ofan að markmaður má ekki hreyfa höfuð í kaststefnu boltans til þess að verja hann.

Létt snerting á skotmann frá varnarmanni sem ekki skal refsa stighækkandi er leyfð, en brjóti varnarmaður þannig af sér að skotmaður missi vald, þá skal ekki refsa skotmanni. (Snerting leyfð, hrinding bönnuð.)

Einnig verður skotið að vera beint í höfuð markmannsins. Fari boltinn fyrst í annan líkamshluta hans, eða í gólf eða markramma skal ekki refsa.

Sé skotmanni refsað fær varnarliðið aukakast frá þeim stað sem skotmaðurinn var.

d) Frumkastsvæði bætist við leikvöllinn.

Hringur með 4 metra þvermáli er settur á miðjan völlinn.
Dómari má flauta frumkast á um leið og sóknarmaður er kominn með annan fótinn og boltann inn í frumkastsvæðið.

Sóknarmaður hefur þá 3 sekúndur til að taka frumkastið, og má vera á hlaupum. (Hann má ekki hoppa). Hann verður þá að vera að fullu inni í frumkastsvæðinu þegar hann losar boltann.

Frumkast telst tekið annað hvort þegar boltinn hefur farið úr hendi kastara, og síðan út fyrir frumkasthringinn, eða þegar boltinn hefur verið sendur á samherja sem einnig er inni í hringnum.

Varnarmenn mega ekki fara inn í hringinn eftir að kastara er tilbúinn til að taka kastið fyrr en því er lokið. Þeir mega hins vegar standa upp við hringinn (eins og í útkasti upp við markteig).

Kastari má ekki fara með neinn líkamshluta út fyrir hringinn áður en hann tekur kastið. Það þýðir að hann má ekki reyna að „veiða“ varnarmann í þá gildru að vera of nálægt kastara.

Missi kastari boltann inni í hringnum hefur samherji 3 sekúndur til að koma og ná í boltann, annars dæmist aukakast til varnarliðs.

Ætlast er til að kastari taki frumkastið sem næst miðju, en sé ekki að fara of nálægt brún hringsins. Þá er hann að leika sér að eldinum, að fá á sig dæmt sóknarbrot.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -