Bikarmeistarar Hauka í handknattleik kvenna hafa orðið fyrir áfalli á lokaspretti Olísdeildar kvenna. Sara Sif Helgadóttir markvörður tekur ekki þátt í síðustu leikjum liðsins í deildinni. Hún meiddist á æfingu landsliðsins í vikunni og verður frá keppni næstu vikur. Sara Sif staðfesti ótíðindin við handbolta.is síðdegis í dag.
„Ég næ úrslitakeppninni,“ sagði Sara Sif við handbolta.is.
Sara Sif meiddist á hné þegar talsvert var liðið á æfinguna á þriðjudaginn. Um er að ræða sama hné og hún sleit krossband í fyrir nokkrum árum. Meiðslin nú eru sem betur fer ekki eins alvarleg en munu halda henni frá keppni í einhverjar vikur.
Sara Sif fór á kostum með Haukum í undanúrslitum í úrslitaleik Poweradebikarsins í síðustu viku.
Haukar eiga fimm leiki eftir í Olísdeildinni fram til 3. apríl. Þá kemur 12 daga hlé vegna umspilsleikja landsliðsins fyrir HM.
Áætlað er að úrslitakeppnin hefjist 15. apríl hjá liðunum sem hafna í sætum þrjú til sex. Haukar eru sem stendur í þriðja sæti deildarinnar, jafnt Fram að stigum. Fram er í öðru sæti á úrslitum innbyrðisleikja.
Undanúrslit úrslitakeppni Olísdeildar kvenna á að hefjast 25. apríl.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.