- Auglýsing -
- Auglýsing -

Með leiftrandi leik var Alsírbúum aldrei hleypt upp á dekk

Valinn hefur verið 20 manna landsliðshópur fyrir EM. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik stimplaði sig hressilega inn á heimsmeistararmótið í handknattleik í kvöld með stórsigri á Alsír, 39:24, með því að leika leiftrandi handknattleik frá upphafi til enda gegn liprum Alsírbúum sem sáu aldrei til sólar. Þeim var aldrei hleypt upp á dekk. Skilaboðin voru skýr frá upphafi og segja má að leikurinn hafi verið afgreiddur á 30 mínútum.


Staðan í hálfleik var 22:10. Lokaleikur Íslands í riðlakeppninni verður á mánudaginn gegn Marokkó sem er lið ekki ósvipað að getu og Alsír, heldur veikara ef eitthvað er. Leið Íslands í milliriðlakeppnina er því nokkuð greið.
Guðmundur Þórður Guðmundsson gerði tvær breytingar fyrir leikinn frá viðureigninni við Portúgal. Kallaði inn Björgvin Pál Gústavsson markvörður og Magnús Óla Magnússon. Björgvin Páll byrjaði í markinu og hann var fljótur að gefa tóninn.


Fyrst og fremst var áræðni og og hreyfanleiki í sóknarleik Íslands frá upphafi. Alsírbúar byrjuðu á að leika 3/3 vörn sem íslenska liðinu gekk vel að leysa. Menn voru mjög hreyfanlegir en um leið afslappaðir. Nýttu klippingar mikið, árásir sem skilaði hverri opnuninni á fætur annarri.
Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var munurinn orðinn fimm mörk, 10:5, og sóknarnýtingin verið fín. Björgvin Páll bætti við ellefta markinu áður en þjálfari Alsír tók leikhlé til að leggja á ráðin. Þá þegar var einn leikmaður liðsins kominn með rautt spjald fyrir að ganga alltof vasklega út á móti Viggó Kristjánssyni.


Í síðari stundarfjórðungi fyrri hálfleiks var um einstefnu að ræða. Leikhléið skilaði Alsírbúum engu. Þeir bökkuðu niður í 5/1 vörn sem hjálpaði ekkert upp á sakirnar hjá þeim.

Mynd/EPA


Leikmenn Alsír fundu fáar leiðir gegn íslensku vörninni sem var framúrskarandi með Ými Örn Gíslason í aðalhlutverki. Til viðbótar var Björgvin Páll frábær í markinu og varði alls sjö skot auk þess að skora eitt mark. Sóknarleikurinn gekk áfram eins og smurð vél. Ólafur Guðmundsson lék frábærlega. Hann skoraði mörk og lagði upp fyrir samherja sína auk þess að vinna vítaköst. Gísli Þorgeir lék sér að varnarmönnunum og Bjarki Már Elísson skoraði að vild, alls níu mörk.


Þegar flautað var til hálfleiks var 12 marka munur. Alsírbúum var aldrei hleypt upp á dekk. Hleranum var skellt á nefið á þeim strax í upphafi. Þeim var gert ljóst frá upphafi að þeim yrði ekki hleypt upp úr lestinni.


Skotnýtingin í fyrri hálfleik var 96% og aðeins einu sinni tapaðist boltinn.
Alsírbúar reyndu hvað þeir gátu í upphafi síðari hálfleiks en höfðu lítt erindi sem erfiði. Íslenska liðið gaf ekkert eftir. Varnarleikurinn var frábær. Menn voru ákafir og á tánum með Ými Örn og Arnar Frey Arnarsson í aðalhlutverki. Munurinn var kominn undir 20 mörk þegar mest var. Íslenska landsliðið ætlaði að sýna að þótt andstæðingurinn væri veikur að þeim væri full alvara með þátttöku sinni á mótinu. Það tókst svo sannarlega.

Mynd/EPA


Bjarki Már Elísson var valinn maður leiksins í leikslok og var vel að því kominn.
Mörk Íslands: Bjarki Már Elísson 12/6, Ólafur Andrés Guðmundsson 6, Alexander Petersson 4, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Viggó Kristjánsson 3, Oddur Gretarsson 3, Elliði Snær Viðarsson 2, Arnór Þór Gunnarsson 2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 2, Arnar Freyr Arnarsson 1, Björgvin Páll Gústavsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 11.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -