- Auglýsing -
- Auglýsing -

Með því besta sem við höfum gert á EM

Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari Noregs. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Þetta er með því besta sem við höfum gert á Evrópumótum, ekki síst þegar tekið er mið af aðdraganda mótins og hvernig hópurinn var samsetttur. Við erum mjög ánægð teljum okkur hafa sýnt mjög sterka frammistöðu,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari nýkrýndra Evrópumeistara Noregs, í samtali við handbolta.is.

Sá sigursælasti

Þórir stýrði Noregi á sunnudaginn til sigurs í fimmta sinn á sínu sjöunda Evrópumóti sem þjálfari landsliðsins og vann um leið sín níundu gullverðlaun sem þjálfari þess á stórmóti. Þórir er orðinn sigursælasti landsliðsþjálfari sögunnar og sló við Frakkanum Claude Onesta sem vann átta stórmót frá 2001 til 2016.


Eftir tap fyrir Dönum í síðustu umferð milliriðlakeppninnar þá náðu Þórir og leikmenn norska landsliðsins fram hefndum í úrslitaleiknum með því að snúa við taflinu síðasta stundarfjórðuginn í úrslitaleiknum, vinna kaflann 8:3, og leikinn 27:25.

Kom ekki til greina að tapa tvisvar

„Það kom alls ekki til greina að tapa tvisvar fyrir Dönum á sama mótinu,“ sagði Þórir og hló áður en hann bætti við í alvarlegri tón.

„Danska liðið er sterkt um þessar mundir. Kjarni hópsins hefur verið saman í sex til sjö ár liðið sótt mjög í sig veðrið á þessum tíma. Þess vegna á danska landsliðið heima á meðal fjögurra bestu um þessar mundir, en einnig þegar litið er til sögunnar og hvernig unnið er með handknattleik í Danmörku. Þess vegna kemur það ekki á óvart þótt danska liðið hafi komist í úrslitaleikinn. Liðið er hörkusterkt og með sérstaklega sterka vörn og góða markverði.

Opinn úrslitaleikur

Þess vegna var úrslitaleikurinn opinn. Möguleikar liðanna voru jafnir,“ sagði Þórir og bætti við uppröðun mótsins hafi verið þannig að þegar kom að leiknum við Dani í milliriðli mættu þeir betur úthvíldir til leiks en norsku leikmennirnir.

Vantaði ferskleika

„Við voru ekki nógu fersk í þeirri viðureign. Danir áttu meira inni. Það er engin afsökun en var engu að síður ljóst þegar maður sér leikinn. Mínir leikmenn voru ekki eins orkumiklir og þeir dönsku. Liðin eru svo jöfn að það munar um allt þegar komið er vel áleiðis inn í strangt mót,“ sagði Þórir.

Evrópumeistarar Noregs 2022, leikmenn, þjálfarar og aðrir starfsmenn.

Lærðum af reynslunni

„Þegar kom að úrslitaleiknum tókst okkur að lagfæra margt í okkar varnarleik til að mæta betur sóknarleik danska landsliðsins, bæði í stöðunni sex á móti sex og sex á móti sjö. Við lærðum af reynslunni, eins og sagt er. Breytingarnar voru það miklar að Danir náðu ekki að stríða okkur með sjö manna sóknarleiknum eins þeir hafa verið að gera í undanförnum leikjum,“ sagði Þórir og benti m.a. að tekist hafi að setja undir lekann sem olli norska liðinu erfiðleikum er Danir sóttu hratt með tvo línumenn í seinni bylgju upphlaupum.

Engin örþrifaráð

Aðdáunarvert er að sjá að þótt norska landsliðið sé í veikri stöðu 10 til 15 mínútum fyrir leikslok í stórleikjum, eins í úrslitaleiknum á sunnudaginn, þá heldur það sínu striki. Leikmenn eru öruggir með sig og grípa ekki til örþrifaráða. Þórir segir að síðasta árið hafi norska liðið í nokkrum leikjum verið undir fram eftir öllum leikjum sínum en tekist að snúa við taflinu á endasprettinum.

Óbilandi trú er fyrir hendi

„Má þar nefna úrslitaleikinn á HM í fyrra og tvo leiki við Dani á þessu ári þar sem við höfum verið undir þegar komið hefur verið inn á lokakaflann. Alla þessa leiki unnum við á síðustu 10 til 15 mínútunum. Trúin er þar með fyrir hendi hjá mönnum um að það sé aldrei oft seint að vinna leiki meðan eitthvað er eftir af leiktímanum. Þess utan eru leikmenn í frábæru formi og vita þar af leiðandi að þeir eiga inni kraft til þess að leggja í síðustu mínúturnar,“ segir Þórir og undirstrikar að rík áhersla sé lögð á það í þjálfun leikmanna frá því að þeir eru yngri að líkamlegi þátturinn sé í standi. Auk þjálfunar hjá félagsliðum hafi landsliðskonur hvort sem þær leika með félagsliðum utan en innan Noregs aðgang að færustu þjálfurum á vegum norska íþróttasambandsins.

Þórir ásamt nokkrum leikmönnum sínum við hliðarlínuna í einum á leikjum EM 2022. Mynd/EPA

Rík áhersla lögð á líkamlega þáttinn

„Við leggjum svo mikla áherslu á líkamlega þáttinn í þjálfun leikmanna. Hann er lífsnauðsynlegur þegar tekið er þátt í móti með átta til tíu leikjum á stuttum tíma og markmiðið er meðal annars að vera bestur í lokin. Þá verða leikmenn að vera þrautþjálfaðir. Ekkert bendir til annars en með enn meiri hraða í handknattleiknum, eins og hann er að þróast, að það sé enn meiri þörf á að leikmenn hugi að líkamlegu atgervi og séu þrautþjálfaðir,“ sagði Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari Noregs í handknattleik í samtali við handbolta.is.

Fleiri atriði úr ýtarlegu viðtali handbolta.is við Þóri verða birt á næstu dögum. Ritstjóri þakkar Þóri innilega fyrir að gefa sér  tíma eftir miklar annir og álag undanfarinna vikna til að ræða við handbolta.is af sinni alkunnu þolinmæði eins og hann hefði ekkert annað að gera.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -