- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mega gera mistök en ekki reyna að finna upp hjólið í leikjum

Mynd/Eyjólfur Garðarsson

„Við gáfum Valsmönnum leikinn. Markmiðið er að þegar við mætum þeim næst þá höldum við í þá í lengri tíma,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari karlaliðs HK, í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir að lið hans tapaði með sjö marka mun, 32:25, fyrir Val í viðureign liðanna í Olísdeild karla í Origohöllinni.


„Ég var mjög óánægður með síðasta leik okkar í deildinni. Þá gekk mönnum illa að halda sig við það sem þeir áttu að gera. Að þessu sinni gekk betur, menn fóru ekki mikið út fyrir það sem lagt var upp með. Leikmenn mega gera mistök en þeir eiga ekki að reyna að finna upp hjólið á leikvellinum,“ sagði Sebastian og bætt við.


„Stóran hluta leiksins fannst mér við leika af meiri skynsemi að þessu sinni en í síðustu tveimur leikjum. Það er jákvætt. Vissulega geiguðu skot hjá okkur og menn gerðu mistök en samt var þessi leikur skref í framfara átt að mínu mati. Það er jákvætt.“


Sebastian sagði að ekki væri óeðlilegt þótt menn hans töpuðu niður þræðinum. Þegar þreyta fer að segja til sín þá dragi úr einbeitingu.

„Við leikum mjög líkamlega krefjandi varnarleik og reynum þar á ofan að leika hraðan sóknarleik. Menn hafa sýnt það á æfingum að við erum nógu góðir til að leika á þessum hraða. Hitt er svo annað mál að það getur reynst erfiðara að kalla slíkt leik í viðureignum þegar tilfinningarnar blandast í spilið. Þá verður stressið meira og óðagotið vex um leið. Á þessum þáttum erum við að reyna að ná tökum.


Við leikum mjög krefjandi varnarleik. Þar af leiðandi er erfiðara fyrir okkur að leika þrjá leiki í viku en fyrir mörg önnur lið. Sannarlega voru margir leikmenn orðnir þreyttir í lokin. Þá gafst tækifæri til að skipta þeim út af og hleypa öðrum að. Ég vil nýta breiddina í leikmannahópnum. Hún verður ekki til af sjálfu sér,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari HK í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -