Evrópu- og heimsmeistarar Noregs í handknattleik kvenna sem Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson þjálfar, verða í A-riðli þegar titilvörnin hefst á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Slóveníu, Svartfjallalandi og Norður Makedóníu 4. – 20. nóvember á þessu ári. Dregið hefur verið í riðla mótsins.
Norska landsliðið dróst í riðil með landsliðum Ungverjalands, Króatíu og Sviss. Norska landsliðið fær erfiðan andstæðing strax í fyrstu umferð en það mætir landsliði Króatíu. Króatar voru með spútniklið EM 2020 og kræktu í bronsverðlaun eftir að hafa lagt gestgjafa Dani í úrslitaleik um þriðja sætið.
Svíar og Serbar, sem voru með íslenska landsliðinu í riðli undankeppninni, höfnuðu saman í B-riðli ásamt Danmörku og Slóveníu.
Riðlaskipting og leikstaðir
A-riðill: Noregur, Ungverjaland, Króatía, Sviss – leikið í Ljubljana í Slóveníu frá 4. til 8. nóvember.
B-riðill: Danmörk, Svíþjóð, Slóvenía, Serbía – leikið í Celje í Slóveníu frá 4. til 8. nóvember.
C-riðill: Frakkland, Holland, Norður Makedónía, Rúmenía – leikið í Skopje í Norður Makedóníu frá 5. til 9. nóvember.
D-riðill: Pólland, Svartfjallaland, Þýskaland, Spánn – leikið í Podgorica í Svartfjallalandi frá 5. til 9. nóvember.
Þrjú lið fara áfram úr hverjum riðli yfir í milliriðla sem leiknir verða í Ljubljana og Skopje 10. til 16. nóvember.
Leikið verður til undanúrslita og um sæti í Ljubljana 18. til 20. nóvember.
EM 2022 verður síðasta mótið með 16 þátttökuþjóðum. Frá og með EM 2024 verða þátttökuþjóðir 24 eins og hefur verið á EM karla frá 2020.