- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Meistarar síðustu þriggja ára úr leik – þýsku meistararnir í undanúrslit

Leikmenn Esbjerg fagna í sigurleiknum gegn FTC á heimavelli í dag. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Norska liðið Vipers Kristiansand, sem unnið hefur Meistaradeild Evrópu í kvennaflokki þrjú ár í röð, verður ekki með þegar leikið verður til úrslita í keppninni í Búdapest 1. og 2. júní. Tveggja marka sigur Vipers á Györ, 28:26, í síðari viðureign liðanna í átta liða úrslitum í gær hrökk skammt. Györ vann fyrri viðureignina sem fram fór í Noregi með sjö marka mun, 30:23.

Fjögur lið frá fjórum löndum

Franska meistaraliðið er einnig komið í undanúrslit og tekur þátt í úrslitahelginni í Búdapest ásamt Þýskalandsmeisturum Bietigheim og danska meistaraliðinu Esbjerg.

Vonsviknir leikmenn Odense Håndbold eftir að liðið féll úr leik í átta liða úrslitum Meistaradeildar í dag. Ljósmynd/EPA

Bietigheim hefur aldrei náð svo langt í Meistaradeildinni. Liðið lagði Odense Håndbold samanlagt með tveggja marka mun, 60:58. Odense vann heimaleikinn í dag, 32:30. Kelly Dulfer og Xenia Smits skoruðu sjö mörk hvor fyrir Bietigheim. Andrea Hansen skoraði einnig sjö mörk fyrir Óðinsvéaliðið.

Leikmennn þýska meistaraliðsins Bietigheim eftir að liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum í fyrsta sinn. Ljósmynd/EPA

Jamina Roberts skoraði átta mörk fyrir Vipers og Jana Knedlikova fyrrverandi leikmaður Györ skoraði sjö mörk. Ana Gros skoraði sex mörk fyrir Györ og norska landsliðskonan Veronika Kristiansen var næst með fimm mörk.

Anna Vyakhireva leikmaður Vipers Kristiansand sækir að Kari Brattset Dale og Csenge Fodor leikmönnum Györ. Ljósmynd/EPA

Öruggt hjá Metz

Metz vann rúmensku meistarana CSM frá Búkarest öðru sinni í Metz í gær, 29:23, og samanlagt, 56:47. Aliana Grijseels skoraði sjö sinnum fyrir Metz. Að vanda var Cristina Neagu atkvæðamest hjá CSM með sex mörk.

Esbjerg öflugt á heimavelli

Esbjerg vann öruggan sigur á ungverska liðinu FTC í síðasta leik átta liða úrslita í Esbjerg í dag, 29:24. Eftir eins marks sigur í Búdapest fyrir viku þá tóku leikmenn Esbjerg heimaleikinn í dag föstum töku. Forskotið var sjö mörk í hálfleik, 17:10. Leikmenn börðust af krafti framan af síðari hálfleik og tókst að minnka muninn í tvö mörk, 24:22, þegar 11 mínútur voru til leiksloka. Nær komust þeir ekki. Anna Kristensen, markvörður Esbjerg, sá m.a. til þess. Hún átti stórgóðan leik í marki Esbjerg, varði 14 skot, 38%.

Besta handknattleikskona heims um þessar mundir, Henny Reistad, leikmaður Esbjerg fagnar í dag. Hún skoraði tvö mörk gegn FTC í dag en skoraði 10 mörk í fyrri viðureigninni. Ljósmynd/EPA

Sanna Solberg skoraði sex mörk í sex skotum fyrir Esbjerg og var markahæst. Live Rushfeldt Deila var næst með fimm mörk. Katrín Klujber skoraði átta mörk fyrir FTC.

Dregið á þriðjudaginn

Dregið verður á þriðjudaginn í Búdapest um hvaða lið mætast í undanúrslitum Meistaradeildar kvenna 1. júní í MWM Dome í Búdapest. Daginn eftir verður leikið til úrslita.

Einnig verður dregið til undanúrslita í undanúrslitum í Meistaradeild karla í Búdapest á þriðjudaginn. Úrslitahelgi Meistaradeildar karla verður 8. og 9. júní í Köln.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -