Þýsku meistararnir SC Magdeburg voru ekki lengi að jafna sig eftir tap fyrir Pick Szeged í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar á miðvikudagskvöld ef marka má frammistöðu liðsins í dag í heimsókn til HSV Hamburg. Meistararnir léku afar vel frá upphafi til enda og unnu leikinn með sex marka mun, 32:26, eftir að hafa verið sex mörkum yfir í hálfleik, 16:10.
Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk, fjögur úr vítaköstum. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark og gaf fimm stoðsendingar.
SC Magdeburg hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni eins og fleiri lið en líta má á stöðuna í deildinni hér.
Fyrsti sigurinn hjá Heiðmari
Hannover-Burgdorf vann Wetzlar með 11 marka mun á útivelli, 36:25. Þetta var fyrsti sigur Hannover-Burgdorf í deildinni. Heiðmar Felixson er sem fyrr aðstoðarþjálfari. Þýska stjarnan Renars Uscins skoraði sjö mörk í átta skotum í leiknum og var markahæstur hjá sigurliðinu.
Tap á heimavelli
Íslendingaliðið Gummersbach tapaði á heimavelli fyrir Lemgo, 29:27, þvert á vonir flestra áhorfenda í Schwalbe-Arena í Gummersbach. Elliði Snær Viðarsson skoraði fjögur mörk og Teitur Örn Einarsson þrjú. Teitur Örn átti ennfremur þrjár stoðsendingar. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach sem er með tvö stig að loknum tveimur leikjum.
Stigalausir heim frá Berlín
Annað Íslendingatríó, sem er hjá SC DHfK Leipzig, tapaði einnig í þýsku 1. deildinni í dag. SC DHfK Leipzig sótti Füchse Berlin heim og tapaði, 37:32. Viggó Kristjánsson virðist ekki hafa komið mikið við sögu hjá Leipzig því hann hvorki skoraði né gaf stoðsendingu. Andri Már Rúnarsson skoraði fjögur mörk og gaf eina stoðsendingu. Rúnar Sigtryggsson er þjálfari SC DHfK Leipzig sem hefur tvö stig eins og fleiri lið.
Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.