- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Menn eru allavega æstir í byrja“

Kristján Örn Kristjánsson, Donni, hefur verið kallaður inn í landsliðið ásamt Magnúsi Óla Magnússyni. Mynd/PAUC
- Auglýsing -

„Þetta verður að minnsta kosti alvöru próf fyrir mig og liðið allt,“ segir handknattleiksmaðurinn Kristján Örn Kristjánsson, í samtali við handbolta.is. Hann og nýir samherjar í franska liðinu PAUC sækja stórlið PSG heim til Parísar  á sunnudaginn í fyrstu umferð frönsku 1. deildarinnar í handknattleik sem er loksins að hefjast.

Kristján ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur vegna þess að það kemur væntanlega í hans hlut að hafa augu á einum besta handknattleiksmanni heims, Dananum Mikkel Hansen. Kristján verður væntanlega í bakvarðarstöðunni í vörninni gegn dönsku stórskyttunni sem getur svo sannarlega verið brögðótt.  

„Pressan er hafin og undirbúningur fyrir leikinn hefur staðið yfir alla vikuna,“ segir Kristján Örn sem er fullur tilhlökkunar að takast á við ný og krefjandi verkefni og þess vegna er ekkert verra að byrja gegn þeim bestu.

Fimm leikmenn veiktust

Undirbúningur PAUC-liðsins hefur ekki verið hefðbundinn fremur en víða annars staðar. Í byrjun september átti liðið að leika tvo leiki í undankeppni Evrópudeildarinnar. Í aðdraganda fyrri leiksins greindust fimm leikmenn PAUC með kórónuveirusmit. Af þeim sökum var fyrri leikurinn felldur niður og aðeins leikinn einn leikur og honum tapaði PAUC og féll þar með úr leik.

„Við náðum engum æfingaleik fyrir Evrópukeppnina vegna þess að fimm leikmenn fengu covid hjá okkar og við fórum allir í tíu daga sóttkví af þeim sökum. Eftir sóttkví höfum við einungis haft átta eða níu daga til undirbúnings. Við því er ekkert að gera. Svona er bara staðan þessa dagana og það verður að taka mið af henni,“ sagði Kristján Örn.

Þeir fimm samherjar hans sem veiktust af kórónuveirunni hafa allir náð fullri heilsu og engin smit bárust frá þeim yfir í aðra leikmenn PAUC-liðsins.

Fyrsta alvöru prófið

Kristján Örn er vitanlega er kominn með hugann við  sunnudaginn og stórleikinn í París.

„Leikurinn á sunnudaginn verður allavega fyrsta alvöru prófið. Þá sjáum við betur hvernig við spilum saman. Við höfum aðeins leikið einn æfingaleik eftir Evrópuleikinn, og þar spiluðum við mun betur saman. Menn eru allavega æstir í að byrja deildina loksins,“ sagði Kristján Örn sem flutti út til Frakklands í sumar eftir tveggja ára veru hjá ÍBV í Vestmannaeyjum þar  sem hann varð bikarmeistari rétt áður en öllum handknattleiksmótum var slaufað.

Þakklátur fyrir skrefið til Eyja

Kristján segir það hafa vissulega verið viðbrigði að flytja til Frakklands frá Íslandi. Hann hafi hinsvegar búið að  ágætri reynslu eftir að hafa flutt frá Reykjavík til Vestmannaeyja fyrir tveimur árum og staðið þar á eigin fótum í nýju umhverfi.

„Að koma hingað út til Frakklands var að mörgu leyti mjög svipað stökk og þegar ég flutti til Eyja á sínum tíma.  Í ljósi þeirrar reynslu er ég nú mjög þakklátur fyrir að hafa tekið það skref áður en ég henti mér út í stóru laugina. Ég er mjög spenntur að sjá hvernig atvinnumennskan muni þróast hjá mér. Ég hef engar áhyggjur og reikna með að þetta  verði ótrúlega skemmtilegt  og lærdómsrík tímabil,“ segir Kristján Örn Kristjánsson, handknattleiksmaður hjá PAUC, sem er stytting á Pays d‘Aix Université Club Handball.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -