- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Menn eru jafnt og þétt að komast inn í hlutverk sín

Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV íhugull við hliðarlínuna á leik á Akureyri á síðasta keppnistímabili. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

„Það var mjög gott að fá tækifæri til þess að keppa þrjá leiki á móti eftir æfingatörnina síðustu vikur. Að vísu vorum við búnir að leika einn æfingaleik við HK áður en að Ragnarsmótinu kom en nú fengum við fína prófraun og sáum hvar við stöndum um þessar mundir auk þess sem við vorum að þreifa okkur áfram með eitt og annað jafnt í vörn sem sókn,“ sagði Erlingur Richardsson, þjálfari karlaliðs ÍBV, þegar handbolti.is hitti hann stuttlega að máli á laugardaginn eftir að ÍBV hafði lokið keppni á Ragnarsmótinu með sigri á heimamönnum, 30:25, í leiknum um þriðja sætið.

Kærkomið tækifæri

„Við erum með nokkra nýja leikmenn í hópnum sem fengu kærkomið tækifæri í þessu leikjum. Leikirnir hér hafa nýst vel. Menn eru jafnt og þétt að komast inn í hlutverk sín,“ sagði Erlingur og bætti við að undanfarnir leikir hafi verið nýttir til þess að reyna mismunandi varnarleik og einnig hafi menn þreifað sig áfram við sóknarleikinn. Margt hafi gengið upp, annað ekki og það væri bara eins og við mætti búast.

Lofa góðu


Erlingur segir að gaman hafi verið að sjá hversu vel nýir leikmenn eins og Rúnar Kárason og Færeyingurinn Dánjal Ragnarsson smelli vel inn í hópinn og leik liðsins. Rúnar flutti heim í sumar eftir langan feril í Danmörku og í Þýskalandi. Hann býr yfir mikill reynslu. Ragnarsson kom til Eyja frá Neistanum í Færeyjum. Þar er á ferðinni ungur leikmaður sem lofar góðu. Hann hafi hinsvegar aðeins æft með ÍBV síðustu tvær vikur og þurfi lengri tíma til að kynnast nýjum samherjum, utan vallar jafnt sem innan.

Aukin breidd


Einnig er Ásgeir Snær Vignisson kominn á fulla ferð eftir að hafa verið einstaklega óheppinn með meiðsli á síðasta ári. Með hann og Rúnar í stöðu vinstri skyttu eykst styrkur ÍBV-liðsins til muna. Ekki má gleyma Nökkva Snæ Óðinssyni sem fékk alltént það hlutverk í Ragnarsmótinu að leika í hægra horninu og freista þess að fylla eitthvað upp í skarðið sem Hákon Daði Styrmisson skildi eftir sig er hann gekk til liðs við Gummersbach í Þýskalandi í sumar.


Auk Arnórs Viðarssonar og Gauta Gunnarssonar sem voru með U19 ára landsliðinu á EM í Króatíu þá fengu Dagur Arnarsson og Theódór Sigurbjörnsson frí frá leikjunum á Ragnarsmótinu af persónulegum ástæðum. Báðir eru í fínu formi og verða vonandi með ÍBV-liðinu í næstu æfingaleikjum.

Tilbúnir í bikarinn

„Ég veit hvað býr í Degi og Tedda. Í fjarveru þeirra var gott að koma öðrum inn á sporið og gefa þeim tækifæri til að sýna hvað í þeim býr,“ sagði Erlingur sem reiknar ekki með öðru en að verða með sína vöskustu sveit þegar alvaran hefst með 16-liða úrslitum Coca Cola-bikarsins 9. september. ÍBV sækir þá Aftureldingu heim. Um er að ræða bikarkeppni síðasta tímabils en henni var slegið á frest í vor.


„Allir vilja komast í úrslitahelgina í Höllinni og sannarlega er það eitt af markmiðum okkar,“ sagði Erlingur Richardsson, þjálfari karlaliðs ÍBV, í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -