- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Menn verða að vilja sjá samhengi hlutanna“

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Með þann mannskap sem okkur stóð til boða í þessum leik þá var frammistaðan stórkostleg,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, þegar hann gerði upp leikinn við Norðmenn og heimsmeistaramótið með handbolta.is eftir tapið fyrir Noregi, 35:33, í gærkvöld í lokaleik íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu.


„Elvar Örn Jónsson gat ekki leikið í kvöld, Viggó Kristjánsson var dottinn út og eins Arnór Þór Gunnarsson. Þeir bættust við þann hóp leikmanna sem ekki eru hér. Listi yfir þá er orðinn nokkuð langur. Í ljósi þess játa ég að fyrirfram bjóst ég við hverju sem er í leiknum við Norðmenn. En þetta lið sem verður framtíðarlandslið okkar, hefur ótrúlegan sigurvilja og karakter. Af því er ég mjög stoltur af allt mótið.“

Upbygging heldur áfram

„Ég var líka stoltur af þeim í leikjunum við Portúgal í undankeppni EM og eftir að við erum komnir í betri stöðu innbyrðis gegn Portúgal í riðlakeppninni. Það var ekki endilega viðbúið enda mega menn ekki gleyma því að Portúgal varð í sjötta sæti á EM fyrir ári síðan,“ sagði Guðmundur sem leggur áherslu á að uppbygging landsliðsins hafi staðið yfir eftir að hann tók við og muni halda áfram.

„Eftir að ég tók þjálfun landsliðsins er þetta þriðja stórmótið á þremur árum. Ég fór markvisst í að yngja upp liðið. Á sama tíma ákvað ég að nýta krafta og reynslu þeirra sem voru nægilega góðir og voru tilbúnir að halda áfram með okkur fyrsta áfangann, þar á meðal eru Alexander Petersson, Guðjón Valur Sigurðsson og Kári Kristján Kristjánsson, svo ég nefni dæmi. Þeir hafa hjálpa leikmönnum, miðlað af reynslu sinni og staðið við bakið á okkur. Framlag þeirra hefur verið ómetanlegt.“

Meðalaldur

„Engu að síður hefur fókusinn verið á að taka inn unga leikmenn og gefa þeim tækifæri. Elliði Snær Viðarsson kom með okkur núna, svo dæmi sé tekið. Hann hefur aldrei leikið á stórmóti. Elliði hefur leikið stórt hlutverk í liðinu á HM að þessu sinni. Meðalaldurinn í miðjublokkinni er 23 ár að meðtöldum Elvari Erni. Hann hækkar ekki aldur enda jafngamall Ými. Þessir strákar eiga bara eftir að styrkjast með aukinni reynslu. Það er alveg ljóst.“

Verða sjá samhengið

„Þegar allir eru heilir þá getur miðjustaðan verið skipuð Janusi Daða, Hauki Þrastarsyni og Gísla Þorgeiri Kristjánssyni. Meðalaldur þeirra er 21,6 ár. Þetta er það sem ég tala um sem unga liðið. Ef Elvari Erni er bætt í hóp miðjumanna því hann getur leikið þá stöðu einnig þá hækkar meðalaldurinn bara upp í 22 ár. Meðalaldur þeirra sem léku í hægri skyttunni gegn Noregi eru rúmlega 24 ár. Þetta er það sem á við með að yngja upp. Menn geta svo sett upp allskyns lista og sagt að meðaldurinn sé svona hár. Menn verða bara að vilja sjá samhengi hlutanna.“

Tekur sinn tíma

Guðmundur segir að það taki sinn tíma að öðlast alþjóðlega reynslu af þátttöku á stórmótum. Innan hópsin séu margir að leika á sínu öðru eða þriðja stórmóti. „Sumir hafa jafnvel aldrei tekið þátt á stórmóti fyrr en núna og það eru fleiri en einn í okkar liði um þessar mundir.
Það tekur um það bil 50 landsleiki á hæsta getustigi við krefjandi aðstæður að komast á þetta stig. Að standa þeim bestu snúning. Það er reynslan sem oft er talað um. Menn verða að hafa upplifað það jákvæða, það neikvæða, pressu, sigra og töp og leika þegar allt er undir. Þetta vantar okkar enn.


Til viðbótar vil ég bæta við að þegar lítt þekkt lið mæta til leiks þá tekur tíma að öðlast virðingu dómaranna líka. Hana vantaði til dæmis nokkrum sinnum í leiknum við Norðmenn og eins gegn Frökkum. Það sá maður skýrt. Þessa virðingu ávinna menn sér með þátttöku á stórmótum og stórleikjum,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik í samtali við handbolta.is í Kaíró. Engan bilbug var á Guðmundur Þórði að finna í mótslok þrátt fyrir að hafa haft í mörg horn að líta undanfarna daga og vikur.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -