- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mér finnst ég geta gert betur

Ragnheiður Júlíusdóttir stórskytta Fram og landsliðskona í handknattleik. Mynd/Fram
- Auglýsing -

„Það hefur gengið upp og ofan hjá mér til þessa á keppnistímabilinu. Ég hef fundið fyrir meiri pressu eftir að handboltinn fór aftur af stað eftir hléið og hef verið í betra standi í byrjun árs á síðustu keppnistímabilum. Ég held áfram að gera mitt besta við að bæta mig með hverri æfingu og leik sem ég tek þátt í,“ segir Ragnheiður Júlíusdóttir, markahæsti leikmaður Olísdeildar kvenna og leikmaður Fram, þegar handbolti.is hitti hana fyrir á æfingu kvennalandsliðsins í Víkinni í dag.


„Mér finnst ég geta gert betur. Ekki síst í varnarleiknum,“ sagði Ragnheiður sem er lang markhæst í deildinni þegar níu umferðum er lokið. Hún hefur skorað 85 mörk, eða rúmlega níu mörk að jafnaði í leik. Ragnheiður segist ekki hafa skýringu á þessu góða gengi þrátt fyrir að vera ekki fullsátt með eigin frammistöðu.

„Ég veit svo sem ekki hver skýringin er. Ég hef ekki breytt miklu frá síðustu árum. Reyndar tek ég flest vítaköst Fram-liðsins og hef alveg þokkalega góða nýtingu,“ segir Ragnheiður sem vonast til að hún og aðrir leikmenn sæki í sig veðrið þegar lengra líður á keppnistímabilið sem hefur verið afar sérstakt.


„Síðustu árin hef ég fundið mig vel eftir áramót, þegar nokkuð er liðið á tímabilið. Tilfinningin er aðeins önnur núna. Maður verður bara að vinna úr þeirri stöðu sem er fyrir hendi. Vonandi verðum við komnar í fantaformi í lok leiktíðar þegar mestu máli skiptir,“ sagði Ragnheiður ennfremur.

Kærkominn tími

Loksins eru tök á því um þessar mundir að landsliðið komi saman til æfinga í nokkra daga eftir nær engar æfingar á síðasta ári. Síðasti landsleikur var í lok nóvember 2019 og því margt sem þarf að rifja upp og fara yfir. Ragnheiður segir æfingabúðirnar nú vera afar kærkomnar.


„Það er alltaf gott og gaman að koma saman. Þessa daga verðum við að nýta mjög vel því það er mjög stutt í stórverkefni hjá okkur. Maður trúir því varla að framundan sé forkeppni HM í Norður-Makedóníu. Ég er viss um að við munum leggja okkur fullkomlega fram í leikina sem þar verða svo við komumst áfram í HM umspilið. Þessi tími verður að nýtast vel. Æfingarnar eru vel skipulagðar þar sem farið er yfir margskonar varnarleik auk sóknarleiksins. Eins er farið yfir áherslur á fundum og lagt á ráðin,“ sagði Ragnheiður Júlíusdóttir stórskytta úr Fram og landsliðskona í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -