Miðasala á fjórða úrslitaleik ÍBV og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik er komin á fulla ferð á miðasöluappinu Stubbur og ætti að vera orðið öllu áhugafólki um íþróttir vel kunnugt. Leikurinn fer fram í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum á morgun, laugardag, og verður flautað til leiks klukkan 16.
Valur hefur blásið til hópferðar á leikinn og eru nánari upplýsingar um ferðina að finna á Facebook-síðu handknattleiksdeildar.
Í tilkynningu frá handknattleiksdeild ÍBV segir að mjög mikilvægt er að fólk tryggi sér miða í tíma svo auðveldara verði að áætla fjölda í húsið og gera þær ráðstafanir sem þarf varðandi áhorfendastæði.
Reiknað er með fjölda fólks á leikinn, jafnt heimamönnum og stuðningsmönnum Vals enda er ekki hægt að útiloka að Íslandsmeistarabikarinn fari á loft í leikslok. Valur er aðeins einum vinningi frá því að hreppa Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð.
„Okkar menn er hins vegar staðráðnir í því að jafna metin og tryggja okkur oddaleik,“ segir m.a. í tilkynningu handknattleiksdeildar ÍBV.
Lifandi tónlist, grill og hoppukastali
Þar segir ennfremur að upphitun fyrir áhorfendur standi yfir frá klukkan 14:00 fyrir utan Íþróttamiðstöðina. „Lifandi tónlist, þar sem Klaufar stíga á stokk með Bigga í Gildrunni og Siggu Guðna. Grillaðir borgarar og svalandi drykkir til sölu, sjoppan opin og hoppukastalar fyrir krakkana.“
Ef viðureign ÍBV og Vals á morgun verður eitthvað í líkingu við tvær síðustu viðureignir liðanna verður enginn svikinn af ferð til Eyja og góðri skemmtun.