„Allur hópurinn okkar sem fór í PCR próf í dag fékk neikvæða niðurstöðu síðdegis. Nú eru menn komnir í búbblu á Grand hótel. Okkur var skiljanlega mjög létt við þessi tíðindi,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ við handbolta.is í kvöld þegar hann var spurður hver niðurstaðan hafi verið af PCR skimun sem landsliðshópurinn í handknattleik karla gekkst undir í dag og áður hefur verið greint frá.
Hætt var við fyrstu æfingu landsliðsins í dag og menn sendir í skimun fyrir covid í staðinn áður en farið var í búbblu á hóteli.
Fyrsta æfing með morgni
Fyrri hluta dagsins á morgun, mánudag, verður fyrsta æfing landsliðsins með þeim leikmönnum sem reyndust neikvæðir í dag.
Tveir leikmenn úr 20 manna hópnum verða áfram í sóttkví fram á þriðjudag og einn í einangrun fram í miðja viku eins og kom fram í dag. Róbert Geir sagði að þeir bætist þá í hópinn á Grand Hótel. Sama á við tvo starfsmenn HSÍ sem einnig eru starfsmenn á skrifstofu HSÍ. Þeir verða í sóttkví fram á þriðjudag.
Ekkert slakað á skimunum
Þrátt fyrir að hópurinn sé kominn í búbblu á hóteli verða menn áfram að gangast undir PCR próf með reglubundnum hætti þangað til farið verður út til Ungverjalands þriðjudaginn 11. janúar. Ekki kemur til greina að slaka neitt á eftirlitinu að sögn Róberts Geirs.
„Aldrei of varlega farið eins og dæmin sanna,“ sagði framkvæmdastjórinn sem sjálfur verður í einangrun fram á föstudag eftir að hafa smitast af veirunni á lokadögum nýliðins árs.