- Auglýsing -
- Auglýsing -

Minkar senda íslenskar landsliðskonur í snemmbúið jólafrí

Elín Jóna Þorsteinsdóttir hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Vendsyssel. Mynd/Facebook
- Auglýsing -

Danska úrvalsdeildarliðið Vendsyssel, sem landsliðskonurnar Elína Jóna Þorsteinsdóttir og Steinunn Hansdóttir eru hjá, leikur ekki fleiri leiki á þessu ári. Ástæðan er sú að íþróttahúsi félagsins hefur verið gert að loka nú þegar eins og íþróttahúsum víða á norðurhluta Jótlands vegna kórónuveirusmita sem talin eru tengjast minkum.

Af þessu sökum er verið að drepa milljónir minka og loka minkabúum á norðurhluta Jótlands. Grunur leikur á að smit kórónuveiru kunni að berast eða hafi borist frá minkum á búunum.

Þess vegna þarf m.a. að koma til víðtækra lokana víða og m.a. hefur íþróttahúsum verið gert að skella í lás. Verða þau ekki opnuð á ný fyrr en 3. desember.

Steinunn Hansdóttir leikmaður danska úrvalsdeildarliðsins Vensdsyssel. Mynd/Vendsyssel

Vendsyssel átti að leika við Odense Håndbold á miðvikudaginn og Holstebro 18. nóvember. Leikjunum hefur verið frestað um ótiltekinn tíma. Eftir 18. nóvember verður gert hlé á dönsku úrvalsdeildinni vegna undirbúnings og síðar þátttöku danska landsliðsins á Evrópumótinu sem fram á að fara í desember.

Næsti leikur Vendsyssel í úrvalsdeildinni er ráðgerður 30. desember á heimavelli.

Sandra Erlingsdóttir, leikmaður EH Aalborg, sagði við handbolta.is í gær að hennar lið mætti æfa áfram í sínu æfinga,- og keppnishúsi. Það væri af einhverjum ástæðum utan sóttvarnarsvæðisins. „Ég kvarta ekki, en veit ekki hver ástæðan er fyrir að við sleppum,“ sagði Sandra m.a.

Karlalið Mors-Thy hefur brugðist við lokun Thyborghallarinnar, sem er innan smitsvæðis á norður-Jótlandi, með því að flytja bækistöðvar sínar til Mors sem er utan svæðis. Allir leikmenn liðsins flytja einnig til Mors að einum undanskildum sem á ekki heimangengt af fjölskylduástæðum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -