- Auglýsing -
- Auglýsing -

Misstum stjórn á leiknum

Gunnar Magnússon þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handknattleik. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Mér fannst við gera margt vel í leiknum en það sem situr í mér er kafli í lok fyrri hálfleiks þar sem við áttum marga mjög slæma tæknifeila með þeim afleiðingum að FH-ingar refsuðu okkur illa. Á þessum tíma misstum við stjórn á leiknum,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, við handbolta.is eftir að lið hans tapaði fyrir FH, 30:27, í sveifluleik í Kaplakrika í dag í Olísdeildinni.

Afturelding er í sjöunda til áttunda sæti ásamt KA með 19 stig. FH-ingar sitja í öðru sæti með sín 26 stig og eiga leik til góða.


„Því miður þá hefur þetta gerst áður. Það er eins og þegar þreytan fer að segja til sín þá missi menn hausinn og menn gera slæm mistök,“ sagði Gunnar ennfremur.


Þrátt fyrir slæma kaflann í fyrri hálfleik og þá staðreynd að Afturelding var fimm mörkum undir þegar kom fram yfir tíu mínútur síðari hálfleiks þá tókst Mosfellingum að jafna metin, síðast 26:26. Í þeirri stöðu átti Afturelding vítakast og gat komist yfir en Phil Döhler, markvörður FH, varði vítakast Guðmundar Árna Ólafssonar.


„Döhler bjargaði stigunum fyrir FH. Hann varði vítakast og úr opnum færum. Við gerðum margt vel á lokakaflanum og áttum möguleika á að komast yfir eftir allt sem á undan var gengið. Við fengum færi til að ná að minnsta kosti öðru stiginu en því miður tókst ekki að nýta þau. Döhler var það sem munaði á liðunum þegar upp var staðið í lokin,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar í samtali við handbolta.is í Kaplakrika í dag.


Gunnar Kristinn Þórsson Malmquist meiddist í baki í leiknum og var minna með af þeim sökum en vonir stóðu til um. Eins er Þorsteinn Gauti Hjálmarsson ennþá frá keppni vegna meiðsla í olnboga. Þá er markvörðurinn Arnór Freyr Stefánsson úr leik vegna meiðsla og mætir ekki til leiks fyrr en í byrjun næsta keppnistímabils eins og áður hefur komið fram á handbolti.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -