- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mjög spenntur fyrir að taka við Aftureldingu

- Auglýsing -


„Ég er bara mjög spenntur fyrir að taka við Aftureldingarliðinu í sumar,“ segir Stefán Árnason verðandi aðalþjálfari karlaliðs Aftureldingar í samtali við handbolta.is í morgunsólinni að Varmá sem er vel við hæfi hjá nýjum þjálfara Aftureldingar. Stefán, sem er og hefur verið aðstoðarþjálfari Aftureldingar síðustu þrjú ár, tekur við af Gunnari Magnússyni í sumar.

Þakklátur Gunnari

„Ég hef unnið mjög vel með Gunnari undanfarin þrjú ár og er honum þakklátur fyrir að hafa sótt mig til félagsins á sínum tíma og gefið mér tækifæri til þess að vinna með sér í stóru hlutverki. Ég er tilbúinn að stíga þetta skref,“ segir Stefán sem þekkir til þjálfunar meistaraflokksliða. Hann var m.a. bæði á Selfossi og KA auk þess að vera í yngri flokka þjálfun á annan áratug.

Er reynslunni ríkari

„Ég er reynslunni ríkari eftir árin með Gunnari og hef ákveðnar hugmyndir sem gaman væri að hrinda í framkvæmd. Við munum hinsvegar halda áfram með margt að því sem við höfum verið að gera, meðal annars að vinna með hverjum leikmanni,“ segir Stefán sem náð hefur frábæraum árangri með yngri flokka Aftureldingar sem hafa leikið til úrslita á Íslandsmótinu og Poweradebikarnum.

„Þegar ljóst var að Gunnar ætlaði að hætta var það rökrétt skref til þess að halda áfram þeirri vinnu sem stendur yfir hjá félaginu.“

Mikill efniviður fyrir hendi

Stefán segir að mikill efniviður sé fyrir hendi hjá Aftureldingu. Margir metnaðarfullir piltar á aldrinu 17 til 19 ára sem vilja stíga fleiri skref til framfara á næstu árum. „Þeirra bíður meiri vinna á næstu árum við að halda áfram að þróast. Við erum með fínan hóp,“ segir Stefán og bætir við að ekki verði slegið af kröfum hjá Aftureldingu um að vera áfram með lið í fremstu röð á næstu árum. „Mikill metnaður er í klúbbnum. Við ætlum að fylgja árangrinum eftir og vera áfram í toppbaráttu.“

Einbeiting á núverandi tímabil

Stefán segir að Afturelding sé í toppbaráttu í Olísdeildinni auk þess sem úrslitakeppnin er eftir. Áður en hann tekur við í sumar sé hugurinn við núverandi keppnistímabil.

„Fókusinn er að klára tímabilið með sóma. Samstarf okkar Gunnars breytist ekkert fyrr en við höfum lokið verkefninu sem við stöndum í þessa dagana.“

Birgir Steinn fer

Stefán segir ennfremur að einhverjar breytingar verði á leikmannahópi Aftureldingar. Það eina sem er víst er að Birgir Steinn Jónsson gengur til liðs við Sävehof í Svíþjóð í sumar eins og kom fram fyrr í vikunni.

Orðinn Mosfellingur

Eftir þriggja ára veru hjá Aftureldingu segist Stefán verða orðinn Mosfellingur og Aftureldingarmaður. „Ég kann vel við bæinn og umhverfið. Það er frábært fólk í kringum klúbbinn og metnaðarfullt fólk allsstaðar. Ég hef smollið inn í hópinn,“ segir Stefán Árnason verðandi þjálfari Aftureldingar.

Lengra viðtal við Stefán er í myndskeiði hér fyrir ofan.

Sjá einnig:

Stefán tekur við af Gunnari í Mosfellsbæ

Vil ekki vera of lengi á sama stað

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -