- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mögnuð orka í húsinu – Allt var í góðum málum

Sigursteinn Arndal þjálfari FH. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Ég fann það að menn myndu mæta klárir í slaginn en mig óraði samt ekki fyrir að fá annað eins start og raun varð á,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH í samtali við handbolta.is í gærkvöldi eftir að FH vann ÍBV örugglega í fimmta og síðasta undanúrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn, 34:27, í troðfullum Kaplakrika og frábærri stemningu.

Eins og Sigursteinn segir fór FH-liðið frábærlega af stað. Vopnin voru slegin úr höndum leikmanna ÍBV. FH var komið með fimm marka forskot, 8:3, áður en fyrri hálfleikur var hálfnaður og með tögl og hagldir á viðureigninni.

Jákvæð orka

„Eftir frábær byrjun tókst okkur að halda dampi leikinn til enda. Alveg sama hvert var litið; vörn, sókn, hraðaupphlaup, markvarsla, allt var í góðum málum,“ sagði Sigursteinn sem lauk lofsorði á þann mikla stuðning sem FH-liðið fékk í leiknum sem hann segir hafa skilað sér í „svakalega jákvæðri orku.“

„Maður fann það í hvert sinn sem við skoruðum eða þegar varið var þá reis eitthvað upp á bak við mann. Það var magnað að finna þetta. Ég kann FH-ingum bestu þakkir fyrir að fjölmenna og taka þátt í leiknum með þeim hætti sem þeir gerðu í dag,“ sagði Sigursteinn.

FH-liðið var mjög vel einbeitt frá upphafi til enda sem lýsti sér mjög í spilamennskunni auk þess sem leikmenn féllu ekki í þá gryfju að láta skapið hlaupa með sig í gönur eins og stundum vill verða í kappleikjum þar sem spennustigið er hátt.

Undirbúningur án Arons

Sigursteinn segir það hafa legið fyrir fljótlega eftir fjórða leik liðanna í Vestmannaeyjum á miðvikudagskvöld að Aron gæti ekki tekið þátt í oddaleiknum vegna meiðsla í nára. Aðrir leikmenn FH-liðsins hafi vitað af stöðunni. Undirbúningur oddaleiksins strax með það í huga að vera án Arons.

Menn leystu sín hlutverk

„Við höguðum undirbúningi okkar með það í huga að Aron yrði ekki með. Aron er frábær leikmaður sem öll lið deildarinnar myndi ekki vilja missa. FH-liðið er líka stórkostlegt lið. Þar af leiðandi er ég ánægður með liðið og þann brag sem var á því. Menn stigu upp og gengu í þau hlutverk sem þurfti að leysa,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH í samtali við handbolta.is í Kaplakrika í gærkvöld.

Myndasyrpa: Kaplakriki í kvöld

FH í úrslit eftir að hafa kafsiglt Eyjamenn í uppgjörsleik

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -