- Auglýsing -
- Andri Már Rúnarsson varð stoðsendingakóngur Evrópumótsins í handknattleik karla, skipað leikmönnum 20 ára og yngri en mótinu lauk í Porto á síðasta sunnudag. Samkvæmt niðurstöðum Datahandball átti Andri Már flestar stoðsendingar á mótinu, 44, í leikjunum sjö.
- Eins og áður hefur komið frá á handbolta.is þá varð Andri Már markahæstur íslensku leikmannanna á mótinu með 43 mörk og hafnaði í sjöunda sæti. Andri Már stóð þar með á bak við 87 af 235 mörkum íslenska landsliðsins á mótinu, eða 37%.
- Halldór Jóhann Sigfússon mætti til vinnu í gær í fyrsta sinn hjá danska úrvalsdeildarliðinu Tvis Holstebro en hann var ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins til eins árs á dögunum. Holstebro-liðið hóf æfingar á mánudaginn en Halldór Jóhann fékk að mæta aðeins síðar þar sem hann hafði skipulagt sumarleyfi í suðurhöfum áður en forráðamenn Holstebro sýndu honum áhuga.
- Norski línumaðurinn Henrik Jakobsen hefur ákveðið að snúa heim til Danmerkur eftir fjögurra ára veru í Frakklandi. Danska meistaraliðið GOG sagði frá því í gær að það hafi samið við Jakobsen til næstu fjögurra ára. Jakobsen þekkir vel til í herbúðum GOG. Hann lék með liði félagsins frá 2015 til 2018. Eftir það lék Jakobsen með Toulouse í þrjú ár en á síðustu leiktíð var hann liðsmaður Nimes.
- Sverðin hafa verið slyðruð í deilu hollensku handknatteikskonunnar Estavana Polman og danska úrvalsdeildarliðsins Esbjerg. Polman hafði stefnt Esbjerg fyrir dómstóla fyrir samningsrof eftir að það kastaðist í kekki með Polman og forráðamönnum félagsins í vetur sem leið. Í framhaldinu vildi félagið ekki nýta krafta Polman þótt hún ætti ár eftir af samningnum. Polman er nú laus allra mála og er þar með frjálst að róa á önnur mið eftir að sættir tókust og horfið var frá málaferlum. Óvíst er þó enn hvað tekur við hjá hollensku landsliðsstjörnunni.
- Auglýsing -