- Auglýsing -
- Arnór Þorri Þorsteinsson var útnefndur handknattleiksmaður ársins 2021 hjá Þór Akureyri við kjör á íþróttamönnum félagsins sem fram fór á dögunum.
- Rasmus Lauge lék sinn fyrsta landsleik í 427 daga í gær þegar hann fór á kostum með danska landsliðinu þegar það tók norska landsliðið í kennslustund í vináttulandsleik í Hillerød í Danmörku. Lokatölur voru, 35:25, eftir að Danir voru sex mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 21:15. Línumaðurinn Magnus Saugstrup var markahæstur hjá danska liðinu með sex mörk og Harald Reinkind skoraði jafn mörg fyrir norska landsliðið. Niklas Landin fór á tíðum hamförum í danska markinu. Ljóst er af leiknum að Danir verða illviðráðanlegir á Evrópumótinu sem hefst á fimmtudaginn, ef marka má þennan leik.
- Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í landsliði Barein töpuðu fyrir Ungverjum, 36:30, í hörkuleik í Ungverjalandi í gær. Bareinar voru marki yfir að loknum fyrri hálfleik. Þeir eru að búa sig undir þátttöku í Asíukeppninni síðar í þessum mánuði. Ungverjar verða með íslenska landsliðinu í riðli á EM.
- Axel Stefánsson og lið hans Storhamar tapaði með fimm marka mun fyrir Magura Cisnadiei frá Rúmeníu, 33:28, Evrópudeildinni í handknattleik í gær. Leikið var í Rúmeníu.
- Harpa Rut Jónsdóttir og félagar í LK Zug unnu Rotweiss Thun, 31:21, á heimavelli í svissnesku 1. deildinni í handknattleik í gær. LK Zug er efst í deildinni með 16 stig eftir 10 leiki en Brühl er næst á eftir með stigi færra og á auk þess leik til góða.
- Norski handknattleiksmaðurinn Sebastian Barthold og leikmaður Danmerkurmeistara Aalborg tekur þátt í lokakeppni stórmóts í fyrsta sinn í áratug þegar hann mætir til leiks með norska landsliðinu á EM. Barthold stendur á þrítugu. Hann tekur sæti Magnus Jøndal sem lagði skóna á hilluna í sumar. Jøndal var um árabil aðal vinstri hornamaður norska landsliðsins.
- Valentin Porte, fyrirliði franska landsliðsins í handknattleik, greindist með covid á föstudagskvöld. Engu að síður er hann í 20 manna hópi landsliðsins sem tekur þátt í Evrópumótinu þótt e.t.v. verði hann ekki með í fyrsta leik franska landsliðsins á mótinu.
- Auglýsing -