- Auglýsing -
- Danska liðið Aalborg Håndbold með Aron Pálmarsson innanborðs í leikmannahópnum og Arnór Atlason sem aðstoðarþjálfara mætir Veszprém öðru sinni í átta liða úrslitum Meistaradeildar karla í handknattleik í kvöld. Leikið verður í Álaborg. Uppselt var á leikinn fyrir 10 dögum. Aalborg stendur hölllum fæti eftir sjö marka tap í Ungverjalandi í síðustu vikur, 36:29.
- Haukur Þrastarson og félagar í pólska meistaraliðinu Vive Kielce standa betur að vígi í uppgjöri sínu vð Montpellier í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Kielce vann fyrri viðureignina með þriggja marka mun, 31:28, sem fram fór í Montpellier fyrir viku. Ólafur Andrés Guðmundsson er leikmaður Montpellier. Hann hefur verið frá keppni eftir Evrópumót landsliða í janúar vegna meiðsla. Ósennilegt er að Ólafur taki þátt í leiknum í Kielce í kvöld. Heimildir handbolta.is herma að svo kunni að fara að Ólafur yfirgefi Montpellier í sumar.
- Željko Babić fyrrverandi landsliðsþjálfara Króata í handknattleik karla hefur verið sagt upp störfum hjá Eurofarm Pelister í Norður Makedóníu eftir þriggja ára starf. Þetta er niðurstaðan eftir að liðinu tókst ekki að vinna neinn titil á leiktíðinni. Enn eitt árið hirti Vardar Skopje öll sigurlaunin í handknattleik karla í Norður Makedóníu. Babić var landsliðsþjálfari Króata frá 2015 til 2017 og aðstoðarþjálfari 2010 til 2012. Hann hefur marga fjöruna sopið á löngum ferli, fyrst sem leikmaður, en síðar sem þjálfari.
- Holstebro heldur sæti sínu í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Liðið vann HØJ Elite öðru sinni í gærkvöld, 33:27, í umspili um sæti í deildinni. Nikolaj Markussen, sem árum saman var fastamaður í danska landsliðinu, fór á kostum í leiknum og skoraði 10 mörk fyrir Holstebro. Annar fyrrverandi landsliðsmaður Dana, Bo Spellerberg, leikur með HØJ Elite. Hann ákvað í gær að leika áfram með liðinu og framlengdi samning sinn til eins árs. HØJ Elite leikur í næst efstu deild.
- Leikið verður til úrslita á Íslandsmótinu í handknattleik í 3. og 4. flokki í íþróttahúsinu á Varmá í Mosfellsbæ á laugardaginn. Það er óðum að skýrast þess dagana hvaða lið mætast en síðustu leikir undanúrslita standa yfir í þessari viku.
- Auglýsing -