- Auglýsing -
- Bandaríkin unnu Grænland, 33:25, í úrslitaleik undankeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik karla í gærkvöld í Mexíkóborg. Bandaríska landsliðið fær þar með eina farseðilinn sem er í boði fyrir ríki Norður Ameríku og Karabíahafsríkja á HM sem fram fer í Svíþjóð og Póllandi í janúar. Bandaríkin taka sæti í fjórða og neðsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í Katowice í Póllandi á morgun.
- Bandaríkin verða þar með þátttakandi á HM karla í handknattleik í fyrsta sinn í 22 ár. Bandaríska landsliðið átti að vera með á HM 2021 en varð að draga sig úr keppni rétt áður en mótið hófst vegna hópsmits kórónuveirunnar í æfingabúðum á Jótlandi.
- Þar með er ljóst að bandaríska landsliðið verður með á næstu þremur heimsmeistaramótum karla. Nokkur ár eru liðin síðan Alþjóða handknattleikssambandið samþykkti að Bandaríkin hrepptu boðskort (wild card) á HM 2025 og 2027 til undirbúnings fyrir Ólympíuleikana 2028 þegar Bandaríkjamenn verða gestgjafar leikana.
- Í úrslitaleik um bronsið í Norður Ameríkukeppninni vann Kúba landslið Mexíkó, 35:30. Var þetta eini sigur Kúbumanna í keppninni en aðeins fjögur landslið tóku þátt að þessu sinni.
- Holger Glandorf fyrrverandi landsliðsmaður Þýskalands í handknattleik og leikmaður Flensburg tekur í dag við starfi forseta Flensburg-Handewitt. Hann tekur við af Dierk Schmäschke sem verið hefur forseti félagsins um langt árabil.
- Auglýsing -