- Auglýsing -
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson lék með Skövde á ný í gær eftir meiðsli þegar liðið sótti Lugi heim til Lundar. Bjarni skoraði fimm mörk í tveggja marka sigri liðsins, 34:32. Einnig gaf Bjarni eina stoðsendingu. Skövde er í öðru sæti með sjö stig eftir fjóra leiki, er einu stigi á eftir IFK Kristianstad.
- Halldór Jóhann Sigfússon var vafalítið hoppandi kátur í gær með góðan sigur Holstebro á Bjerringbro/Silkeborg, 29:26, á útivelli í sjöttu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Með sigrinum færðist Holstebro upp í sjöunda sæti deildarinnar með sjö stig. Halldór Jóhann er aðstoðarþjálfari Holstebroliðsins.
- Ólafur Andrés Guðmundsson var markahæstur hjá GC Amicitia Zürich með sex mörk, þar af tvö úr vítaköstum, þegar liðið vann RTV 1879 Basel, 29:25, í svissnesku A-deildinni í handknattleik í gær. GC Amicitia Zürich er í fjórða sæti deildarinnar með átta stig eftir fimm leiki.
- Kadetten Schaffhausen er í efsta sæti með 14 stig eftir níu leiki. Kadetten, sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar, vann Wacker Thun á útivelli í gær, 26:23
- Janus Daði Smárason skoraði fimm mörk og gaf fimm stoðsendingar þegar Kolstad vann ØIF Arendal Elite, 30:25, í norsku úrvalsdeildinni í gær. Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði eitt mark. Kolstad er efst í deildinni með átta stig eftir fjóra leiki. Runar og Drammen eru næst með sex stig en hafa leikið einum leik færra en Kolstad. Orri Freyr Þorkelsson og samherjar í Elverum hafa fjögur stig en hafa aðeins lokið þremur leikjum.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, og samherjar í PAUC færðust upp í fimmta sæti frönsku 1. deildarinnar í gær með sigri á Limoges, 38:33, á heimavelli í gær. Donni skoraði þrjú mörk í átta skotum.
- Alpla Hard, liðið sem Hannes Jón Jónsson þjálfar, vann HSG Graz, 30:25, í Graz í gær í fimmtu umferð austurrísku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Hard er í öðru sæti taplaust með níu stig eftir fimm leiki. Krems er efst með 10 stig. Fivers, sem KA mætir síðar í þessu mánuði í Evrópubikarkeppninni, situr í þriðja sæti með átta stig.
- Auglýsing -