- Díana Dögg Magnúsdóttir var allt í öllu þegar Zwickau vann Freiburg, 29:21, á útivelli í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gær. Hún skoraði þrjú mörk, vann vítaköst átti nokkrar stoðsendingar í leiknum auk þess að vera aðsópsmikil í varnarleiknum. Á sama tíma tapaði efsta lið deildarinnar, Füchse Berlin fyrir Nord Harrisle, 27:24. Þar með munar nú aðeins tveimur stigum á Zwickau og Berlínarliðinu í efstu sætunum tveimur. Herrenberg er einnig með 25 stig eins og Zwickau. Þess utan eiga Zwickau og Herrenberg leik til góða á Füchse Berlin. Það stefnir þar með í spennandi keppni á næstu vikum en efstu liðin eiga eftir tíu til ellefu leiki hvert. Tvö efstu liðin fara upp úr deildinni í vor.
- „Við slökuðum kannski helst til of mikið í seinni hálfleik en kláruðum leikinn ágætlega sem var mikilvægt,” sagði Díana Dögg í skilaboðum til handbolta.is í morgun.
- Aron Dagur Pálsson skoraði þrjú mörk þegar lið hans Alingsås gerði jafntefli við Redbergslids IF, 25:25, á útivelli í gær í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Alingsås er í fjórða sæti með 32 stig eftir 24 leiki og er þremur stigum á eftir Malmö og Ystads IF sem eru í efstu sætunum tveimur.
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu þegar lið hans, Holstebro, tapaði fyrir Bjerringbro/Silkeborg, 33:31, útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í gær. Liðin höfðu þar með sætaskipti. Bjerringbro/Silkeborg færðist upp í þriðja sæti með 27 stig eftir 19 leiki en Holstebro seig niður í fjórða sæti með 26 stig. Bæði lið eru örugg um sæti í 8-liða úrslitum um danska meistaratitilinn sem leikinn verður að vanda í tveimur fjögurra liða riðlum eftir að 22 umferðum í deildarkeppninni verður lokið.
- Arnar Birkir Hálfdánsson tryggði EHV Aue sigur, 23:22, á Dessauer Roßlauer HV á heimavelli í gær í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Rúnar Sigtryggsson er tímabundið þjálfari EHV Aue um þessar mundir. Arnar Birkir skoraði alls fjögur mörk í leiknum. Sveinbjörn Pétursson stóð í marki Aue hluta leiksins en náði sér ekki á strik. EHV Aue er í 10. sæti deildarinnar með 13 stig eftir 13 leiki og á tvo til þrjá leiki til góða á flest lið deildairnnar.
- Aron Pálmarsson skoraði eitt mark þegar Barcelona vann sinn nítjánda leik í spænsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Barcelona sótti þá Huesca heim og vann með 12 marka mun, 40:28.