- Auglýsing -

Molakaffi: Díana Dögg, Óskar, Viktor, Axel, Elías Már, Steinunn, Haukur, Ólafur Andrés

Díana Dögg Magnúsdóttir leikmaður BSV Sachsen Zwickau. Mynd/Sachsen Zwickau
  • Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði fjögur mörk, átti eina stoðsendingu og stal boltanum einu sinni þegar lið hennar BSV Sachsen Zwickau tapaði naumlega fyrir Thüringer, 24:22, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. BSV Sachsen Zwickau er fallið niður í næst neðsta sæti vegna þess að liðið sem var þar fyrir, Bad Wildungen, tók upp á því að vinna neðsta lið deildarinnar, Rosengarten, 32:25. Bad Wildungen komst þar með stigi upp fyrir BSV Sachsen Zwickau sem á þrjá leiki til góða á Wildungenliðið. 
  • Óskar Ólafsson og Viktor Petersen Norberg skoruðu þrjú mörk hvor þegar Drammen vann stórsigur á Fjellhammer, 40:24, í norsku úrvalsdeildinni í gær á heimavelli. Drammenliðið er öruggt um annað sæti deildarinnar. Þegar ein umferð er eftir er Drammen 11 stigum á eftir meisturum Elverum en sex stigum á undan Runar Danderfjord sem er í þriðja sæti.
  • Axel Stefánsson gat fagnað sigri með Storhamar á útivelli þegar liðið lagði Tertnes, 29:26, í úvalsdeild kvenna. Axel er annar þjálfara Storhamar sem er í öðru sæti deildarinnar. Storhamar verður áfram í öðru sæti hvernig sem leikur liðsins í síðustu umferð endar. 
  • Ekki gekk eins vel hjá Elíasi Má Halldórssyni og liðsmönnum hans í Fredrikstad er liðið fékk Camillu Herrem og stöllur í Sola í heimsókn. Herrem skoraði sex mörk þegar Sola vann með 15 marka mun, 37:22. Fredrikstad er í sjöunda sæti og á möguleika á að taka þátt í úrslitakeppni átta efstu liðanna. Fredrikstad heimsækir Flint Tønsberg í síðustu umferð á sunnudaginn. Flint Tønsberg er úr sögunni í keppni um sæti í úrslitakeppninni. Liðið situr í 12. sæti af 14. 
  • Steinunn Hansdóttir skoraði ekki mark þegar Skanderborg tapaði fyrir Ajax í kjallarakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar í gærkvöld. Skanderborg er án stiga eftir tvo leik í keppni neðstu liða deildarinnar um að komast hjá falli úr úrvalsdeildinni í vor. 
  • Pólska meistaraliðið Vive Kielce er komið úrslit pólsku bikarkeppninnar í handknattleik eftir sigur á Kalisz, 37:22,  á heimavelli í undanúrslitaleik í gær. Vive Kielce mætir annað hvort Wisla Plock eða Azoty-Pulawy í úrslitum.  Haukur Þrastarson lék með Kielce í leiknum. Frekar upplýsingar var ekki að finna þrátt fyrir ýtarlega leit á heimsíðu liðsins seint í gærkvöld. 
  • Veszprém komst í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla í gærkvöld þrátt fyrir jafntefli við Vardar, 31:31, í síðari viðureign liðanna í 1. umferð útsláttarkeppninnar í Skopje í gærkvöld. Ungverska liðið vann fyrri viðureignina með átta marka mun, 30:22. 
  • Franska liðið Montpellier er einnig komið áfram í átta liða úrslit. Montpellier vann Porto, 35:27, á heimavelli i gærkvöld. Fyrri viðureigninni lauk með jafntefli, 29:29. Ólafur Andrés Guðmundsson var fjarri góðu gamni í liði Montpellier að þessu sinni.
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -