- Auglýsing -
- Elías Már Halldórsson og liðsmenn hans í Fredrikstad Bkl. unnu stórsigur á Sola, 37:26, á heimavelli í 2. umferð norsku úrvalsdeildarinnar í gær. Alexandra Líf Arnarsdóttir var ekki í leikmannahópi Fredrikstad að þessu sinni. Óhætt er að segja að leikmenn Fredrikstad hafi í gær rekið af sér slyðruorðið eftir tap fyrir nýliðum Volda í 1. umferð.
- Sunna Guðrún Pétursdóttir og Harpa Rut Jónsdóttir fögnuðu sigri með GC Amicitia Zürich á LK Zug á útivelli í gær, 26:20, í svissnesku A-deildinni í handknattleik. Sunna Guðrún lék sinn fyrsta deildarleik með GC Amicitia Zürich. Hún varði sex skot, 24%. Harpa Rut skoraði ekki gegn sínum gömlu samherjum en stóð sig vel í vörninni. Þetta var fyrsti sigur GC Amicitia Zürich á LK Zug í 16 ár.
- Aðalsteinn Eyjólfsson hrósaði sigri með Kadetten Schaffhausen á RTV Basel, 31:28, á útivelli í gær í efstu deild karla í Sviss. Kadetten hefur unnið fjórar fyrstu viðureignir sínar í deildinni.
- Andrea Jacobsen var markahæst hjá EH Aalborg með fimm mörk þegar liðið tapaði naumlega fyrir TMS Ringsted, 26:25, í 1. deild danska handknattleiksins í gær. Leikurinn fór fram í Ringsted og var sá fyrsti í deildinni á nýju keppnistímabili hjá báðum liðum.
- Hannes Jón Jónsson stýrði sínum mönnum í Alpla Hard til annars sigurs í austurrísku 1. deildinni í handknattleik í gær. Alpla vann þá Handball Tirol, 29:26, á útivelli.
- Haukur Þrastarson var ekki í leikmannahópi Łomża Kielce þegar liðið vann stórsigur á Pogoń Szczecin, 43:23, á heimavelli í annarri umferð efstu deildar í Póllandi í gær.
- Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu þegar lið hans Fredericia gerði jafntefli á heimavelli við Skjern, 25:25, í 3. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í gær. Sveinn Jóhannsson var í leikmannahópi Skjern. Eivind Tangen jafnaði metin fyrir Skjern þegar sex sekúndur voru til leiksloka. Guðmundur Þórður Guðmundsson er þjálfari Fredericia.
- Daníel Freyr Andrésson kom litlum vörnum við þann tíma sem hann stóð í marki Lemvig í gær í tapleik á móti Aalborg Håndbold í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik, 37:24. Leikið var í Álaborg. Daníel Freyr varði eitt skot, 7%. Þetta var þriðja tap Lemvig en um leið þriðji sigur Aalborg Håndbold. Aron Pálmarsson var fjarverandi hjá Álaborgarliðinu vegna meiðsla. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg.
- Auglýsing -