- Auglýsing -
- Íslendingaliðið Ribe-Esbjerg tryggði sér baráttustig á heimavelli gegn Bjerringbro/Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í gær, 31:31. Ribe-Esbjerg skoraði þrjú síðustu mörk leiksins og var Elvar Ásgeirsson einn þeirra sem skoraði á þeim kafla. Ágúst Elí Björgvinsson varði eins og berserkur á endasprettinum, m.a. skot á síðustu sekúndu viðureignarinnar. Ágúst Elí skoraði eitt og varði níu skot, 30%. Elvar skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu. Arnar Birkir Hálfdánsson kom lítið við sögu. Ribe-Esbjerg situr í sjötta sæti deildarinnar með átta stig eftir sjö leiki. Bjerringbro/Silkeborg hefur jafn mörg stig.
- Sveinn Andri Sveinsson skoraði ekki mark fyrir Empor Rostock í gær þegar liðið vann loksins leik í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Rostockliðið vann þá nýliða Wölfe Würzburg, 33:27, á útivelli í 6. umferð deildarinnar. Hafþór Már Vignisson var ekki í leikmannahópi Empor Rostock í leiknum.
- Grétar Ari Guðjónsson varði níu skot í marki Sélestat í gærkvöld þegar liðið tapaði naumlega fyrir Cesson Rennes, 23:22, í fimmtu umferð frönsku 1. deildarinnar í handknattleik. Sélestat er án stiga eftir fimm leiki og er neðst ásamt Istres sem einnig er stigalaust. Grétar Ari hefur staðið fyrir sínu og 33% hlutfallsmarkvörslu samanlagt eftir leikina fimm sem eru að baki í þessari sterku deild.
- Henk Groener tekur við þjálfun þýsku liðsins Borussia Dortmund eftir að André Fuhr hætti fyrir skömmu eftir að tveir leikmenn liðsins voru leystir undan samning vegna samstarfserfiðleika við þjálfarann. Groener er þrautreyndur þjálfari. Hann stýrði hollenska kvennalandsliðinu frá 2009 til 2016 og þýska kvennalandsliðinu frá 2018 þangað til snemma á þessu ári þegar hann var leystur frá störfum eftir ítrekuð vonbrigði Þjóðverja með frammistöðu landsliðsins á stórmótum undir hans stjórn.
- Leikmenn ungverska meistaraliðsins Pick Szeged sendu frá sér opinbera afsökun í gær, daginn eftir 12 marka tap á heimavelli fyrir Aalborg í Meistaradeild Evrópu í handknattleik. Í yfirlýsingunni er beðist afsökunar á dapurri frammistöðu í leiknum og því heitið að bitið verði í skjaldarrendur.
- Auglýsing -