- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Elvar, Arnar, Janus, Daníel, Teitur, Andrea, Ágúst, Felix, Finnur, Bjartur, Sóldís, Johansson

Elvar Örn Jónsson leikmaður Melsungen og Selfyssingur. Mynd/MT Melsungen
- Auglýsing -
  • Elvar Örn Jónsson skoraði tvö mörk og átti tvær stoðsendingar fyrir lið Melsungen þegar það gerði jafntefli við Leipzig, 22:22, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Arnar Freyr Arnarsson skoraði ekki en lék til sín taka svo eftir var tekið í vörninni. Var honum í þrígang vísað af leikvelli, síðast eftir liðlega 45 mínútna leik. Alexander Petersson var í liði Melsungen en skoraði ekki né virtist hafa komið mikið við sögu. Melsungen er í sjötta sæti deildarinnar með 25 stig eftir 21 leik.
  • Ekkert varð af því að Janus Daði Smárason og félagar í Göppingen tækju á móti Hannover-Burgdorf á heimavelli í þýsku 1. deildinni í gærkvöld. Sömu sögu má segja af heimsókn Daníels Þórs Ingasonar og samherja í Balingen til Hamborgar. Veiran er enn að gera mönnum gramt í geði í Þýskalandi eins og víða annarstaðar.
  • Teitur Örn Einarsson kom lítið til skjalanna þegar lið hans Flensburg tapaði fyrir franska meistaraliðinu PSG, 33:30, í Meistaradeild Evrópu, B-riðli, í París gærkvöld. Flensburg er í fimmta sæti riðilsins með níu stig eftir 12 leiki og er níu stigum á eftir Vive Kielce sem trónir í efsta sæti.
  • Unnusta Teits Arnar, Andrea Jacobsen landsliðskona, skoraði fjögur mörk og átti fjórar stoðsendingar er lið hennar Kristianstad tapaði enn einum leiknum í sænsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Að þessu sinni tapaði Kristianstad fyrir Skövde, 32:28, á heimavelli. Kristianstad er í 10. sæti af 12 liðum deildarinnar.
  • Ágúst Ingi Óskarsson skoraði 14 mörk fyrir Neistan í gærkvöld þegar liðið tapaði fyrir H71, 37:30, í færeysku úrvalsdeildinni í handknattleik í Höllinni á Hálsi í Þórshöfn. Felix Már Kjartansson skoraði ekki mark fyrir Neistan. Finnur Hansson skoraði einu sinni. Aðeins eru nokkrir dagar síðan liðin mættust í úrslitaleik í bikarkeppninni.
  • Bjartur Már Guðmundsson skoraði einu sinni fyrir StÍF í eins marks tapi fyrir Team Klaksvik, 28:27, í Klaksvík í viðureign liðanna í færeysku úrvalsdeildinni.
  • Sóldís Rós Ragnarsdóttir ung og efnileg handknattleikskona hjá Fram hefur skrifað undir tveggja ára samning við félagið. Sóldís Rós, sem er á 17. ári, var valin í æfingahóp U-18 ára landsliðsins á dögunum og hefur vakið verðskuldaða athygli í vetur fyrir frammistöðu sína með ungmennaliðinu og 3. flokki Fram.
  • Per Johansson verður næsti landsliðsþjálfari Hollendinga í handknattleik kvenna. Johansson er nú þjálfari rússnesku meistaranna Rostov-Don. Samningur hans við félagið rennur út í vor og óvíst er hvort hann hann haldi áfram. Johansson hefur mikla reynslu af þjálfun landsliða, m.a. hefur hann verið þjálfari kvennalandsliða Svíþjóðar og Svartfjallalands. Monique Tijstersman, sem stýrði hollenska landsliðinu á HM á Spáni í desember, var látin taka pokann sinn eftir að mótinu lauk.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -