- Emelía Dögg Sigmarsdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við handknattleiksdeild Víkings og verður því með liðinu á komandi tímabili. Emelía er 32 ára markmaður sem kom til Víkings árið 2020 en þar á undan spilaði hún með KA/Þór, HK og Val.
- Japanski línu- og landsliðsmaðurinn Kenya Kasahara sem lék með Herði á Ísafirði á síðasta keppnistímabili hefur söðlað um og samið við pólska liðið Grupa Azoty Unia Tarnów. Kasahara skoraði 49 mörk í 20 leikjum með Herði í Grill66-deildinni á síðasta keppnistímabili. Brotthvarf Kasahara frá Herði hefur legið fyrir um nokkurt skeið.
- Þrátt fyrir nokkurn flótta leikmanna frá Vardar Skopje upp á síðkastið þá er engan bilbug á hornamanninum örvhenta, Goce Georgievski, að finna. Hann er 35 ára gamall og heldur tryggð við sitt félag. Georgievski, sem lengi hefur átt sæti í landsliði Norður Makedóníu, skrifaði nýverið undir nýjan tveggja samning við félagið.
- Spánverjinn Fernando Gurich Mina hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Slóvaka í handknattleik karla til næstu fjögurra ára. Hann tekur við af Peter Kukucka sem leystur var frá störfum eftir að landsliði Slóvaka lánaðist ekki að tryggja sér keppnisrétt á HM á næsta ári.
- Kukucka var í vor ráðinn þjálfari HC Kriens-Luzern í Sviss. Liðið það stefnir hátt á næsta keppnistímabili og hefur m.a. klófest Andy Schmid og Fabian Böhm eins og áður hefur komið fram á handbolti.is.
- Auglýsing -