- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Fredericia, Daníel Freyr, Lijewski, Ribera, Vujović

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -
  • Fredericia Håndboldklub tapaði á útivelli fyrir KIF Kolding, 35:31, í grannaslag í næst síðustu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í gær. Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia Håndboldklub og var einu sinni vísað af leikvelli. Guðmundur Þórður Guðmundsson er þjálfari Fredericia Håndboldklub sem situr í sjöunda sæti deildarinnar með 26 stig eftir 25 leiki og hefur fyrir löngu tryggt sér sæti í átta liða úrslitum um danska meistaratitilinn. 
  • Daníel Freyr Andrésson varði annað af tveimur skotunum sem hann spreytti sig á í gær með Lemvig þegar liðið tapaði fyrir Bjerringbro/Silkeborg, 27:19, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Lemvig er næst neðst í deildinni með 12 stig eftir 24 leiki. 
  • Tilkynnt var í gær að Marcin Lijewski hafi  verið ráðinn þjálfari pólska karlalandsliðsins í handknattleik. Hann tekur við starfinu af Patryk Rombel sem tók pokann sinn eftir að pólska landsliðið stóð ekki undir væntingum á heimsmeistaramótinu í upphafi ársins. Lijewski skrifaði undir fimm ára samning við pólska handknattleikssambandið. Hann lék 251 landsleik fyrir Pólland á árunum 1997 til 2013. 
  • Jordi Ribera þjálfari spænska karlalandsliðsins í handknattleik ætlar að hætta eftir Ólympíuleikana á næsta ári. Hann er sagður ætla að snúa sér að félagsliðaþjálfun. Ribera hefur verið landsliðsþjálfari Spánar frá 2016. Þar áður var hann landsliðsþjálfari Brasilíu frá 2012. Síðasta þjálfaði Ribera lið Ademar León 2007 til 2011. 
  • Handknattleiksþjálfaranum þrautreynda, Veselin Vujović, líkar vel við lífið í Íran. Ekki aðeins hefur hann skrifað undir lengri samning um þjálfun karlalandsliðs Íran heldur hefur hann tekið að sér að þjálfun meistaraliðsins Sepahan, eftir því sem Balkan-handball sagði frá í gær. Vujović hefur marga fjöruna sopið sem leikmaður og síðar þjálfari. Hann er af mörgum álitinn einn allra besti handknattleiksmaður sögunnar.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -