- Auglýsing -
- Stórleikur Grétars Ara Guðjónssonar í marki franska 2. deildarliðsins Nice dugði ekki til sigurs á Sarrebourg á heimavelli í gærkvöldi. Nice tapaði með þriggja marka mun, 27:24. Grétar Ari varði 17 skot, þar af eitt vítakast, sem lagði sig út á 39,6% hlutfallsmarkvörslu. Nice var einu marki yfir í hálfleik, 14:13, og situr um þessar mundir í 10. sæti deildarinnar af 16 liðum með átta stig að loknum níu leikjum.
- Elvar Ásgeirsson var markahæstur hjá Nancy í gærkvöld þegar liðið tapaði naumlega á útivelli fyrir Dunkerque, 24:23, í frönsku 1. deildinni í handknattleik karla. Elvar skoraði sex mörk í sjö skotum. Tvö af mörkunum skoraði Mosfellingurinn úr vítaköstum. Nancy er sem fyrr í næst neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig.
- Ágúst Elí Björgvinsson náði sér ekki á strik í gærkvöld og varði aðeins eitt skot af tíu þann tíma sem hann stóð í marki Kolding er liðið gerði jafntefli á heimavelli við bikarmeistara Mors-Thy, 31:31. Kolding er í 11. sæti af 15 liðum deildarinnar með sex stig eftir 10 leiki.
- Annar markvörður, Elín Jóna Þorsteinsdóttir, náði sér ekki heldur á flug í gærkvöld er lið hennar, Ringköbing mætti Horsens á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni og tapaði með átta marka mun, 30:22. Elín Jóna varði sex skot, 21,4% hlutfall, þann tíma sem hún stóð á milli stanganna í marki Ringköbing-liðsins sem er í næst neðsta sæti með sex stig eftir 12 leiki.
- Auglýsing -