- Auglýsing -
- Markvörðurinn Grétar Ari Guðjónsson stóð sig afar vel og varði 18 skot, þar af voru tvö vítaköst, 36% markvarsla, þegar lið hans, Sélestat, tapaði með 13 marka mun fyrir PSG, 36:23, í frönsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Leikurinn fór fram í París og voru heimamenn þegar komnir með 13 marka forystu í hálfleik, 21:8. Grétar Ari var besti maður liðsins að þessu sinni. Sélestat er nýliði í deildinni og er án stiga eftir tvær umferðir.
- Harpa Rut Jónsdóttir skoraði þrjú mörk þegar lið hennar, GC Amicitia Zürich, vann Yellow Winterthur með sex marka mun, 33:27, á útivelli í 3. umferð svissnesku A-deildar kvenna í handknattleik í gær. Sunna Guðrún Pétursdóttir var einnig í leikmannahópi GC Amicitia Zürich en kom ekkert við sögu í leiknum. GC Amicitia Zürich hefur farið vel af stað og unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni og situr í fjórða sæti.
- Meistaraliðið í karlaflokki í Sviss, Kadetten Schaffhausen sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar, vann Kreuzlingen, 30:22, á heimavelli og hefur 10 stig að loknum sex leikjum. Óðinn Þór Ríkharðsson er ennþá frá keppni vegna ristarbrots fyrir um mánuði.
- Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði tvö mörk, bæði úr vítaköstum, þegar GC Amicita Zürich vann TSV St. Otmar St. Gallen, 29:27 á heimavelli í svissnesku A-deildinni í gær.
- Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði eitt mark fyrir Önnereds í gær í öruggum sigri liðsins á Kungälvs HK, 23:17, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Þetta var fyrsti sigur Jóhönnu og samherja eftir tap í fyrstu umferð á dögunum.
- Haukur Þrastarson skoraði tvö mörk fyrir Kielce þegar liðið vann Energa MKS Kalisz, 43:26, á útivelli í pólsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Kielce hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína í deildinnni.
- Jakob Lárusson fagnaði öðrum sigri við stjórnvölin hjá Kyndli þegar liðið vann Neistann, 25:22, á heimavelli í Høllinni á Hálsi í úrvalsdeild kvenna í handknattleik í Færeyjum í fyrrakvöld. Kyndill hefur þar með fjögur stig eftir tvo fyrstu leiki sína í deildinni.
- Guðjón L. Sigurðsson var eftirlitsmaður EHF á viðureign Storhamar og Lokamotiva Zagreb í B-riðli Meistaradeildar kvenna í handknattleik í Hamri í Noregi í gær. Storhamar vann stórsigur, 37:13. Axel Stefánsson er annar þjálfara Storhamar.
handbolti.is nýtur ekki opinbers rekstrarstuðnings.
- Auglýsing -