- Auglýsing -
- Lærisveinar Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í Fredericia Håndboldklub eru komnir í vænlega stöðu í baráttu um sæti í undanúrslitum dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Stig úr jafntefli við meistara GOG, 33:33, á útivelli bætti stöðuna. Síðasti leikurinn í átta liða úrslitum verður gegn Skanderborg Aarhus á útivelli á næsta sunnudag. Fredericia Håndboldklub þarf helst stig úr leiknum til þess að taka annað sæti í riðli tvö í átta liða úrslitum og leika með í undanúrslitum.
- Bjerringbro/Silkeborg er tveimur stigum á eftir Fredericia Håndboldklub og á leik á sunnudaginn við GOG sem er efst í riðlinum. Einar Þorsteinn Ólafsson lék að vanda með Fredericia í gær og stóð sig vel.
- Andrea Jacobsen skoraði tvö mörk og átti tvær stoðsendingar þegar lið hennar EH Aalborg tapaði fyrir Ajax, 29:25, í fyrsta leik liðanna í umspili um sæti í dönsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Leikurinn fór fram á heimavelli Ajax. Vinna þarf tvo leiki til þess að öðlast sæti í úrvalsdeildinni. Næsti leikur verður á heimavelli EH Aalborg á sunnudaginn.
- Daníel Freyr Andrésson varði sex skot, 33,3%, þann tíma sem hann stóð í marki Lemvig í gær þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir SønderjyskE, 31:30, í keppni neðstu liðanna í dönsku úrvalsdeildinni. Lemvig rekur lestina í riðlinum og virðist stefna í að leika í umspil við lið úr næst efstu deild um veru í úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu þegar hans, Coburg, vann Tusem Essen, 23:20, á heimavelli í gær í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Coburg situr í 10. sæti af 20 liðum deildarinnar þegar sex umferðir eru eftir.
- Jakob Lárusson og leikmenn hans í Kyndli fengu silfurverðlaun eftir að hafa tapað fyrir H71 í úrslitum um færeyska meistaratitilinn í handknattleik kvenna á laugardaginn þegar þriðji leikurinn fór fram, 25:24. Kyndill hafnaði einnig í öðru sæti í deildarkeppninni. Þetta er annað árið í röð sem H71 verður meistari í kvennaflokki.
- Spánverjinn Ambros Martín hefur verið ráðinn þjálfari kvennalandsliðs Spánar í handknattleik. Martín lætur af störfum hjá ungverska stórliðinu Györ í sumar. Hann hefur þjálfað nokkuð af fremstu félagsliðum kvenna í evrópskum handknattelik á undanförnum árum auk landsliða Rússlands og Rúmeníu. Samningur Martín við spænska handknattleikssambandið gildir fram yfir Ólympíuleikana á næsta ári ef spænska liðið nær inn á leikana.
- Auglýsing -