- Viggó Kristjánsson skoraði sjö mörk fyrir SC DHfK Leipzig í gær í eins marks sigri liðsins á Fredericia HK, 23:22. Leikið var í Fredericia en sem kunnungt er þjálfar Guðmundur Þórður Guðmundsson danska liðið og Einar Ólafur Þorsteinsson er leikmaður þess. Andri Már Rúnarsson skoraði ekki mark fyrir Leipzig að þessu sinni. Rúnar Sigtryggsson er þjálfari Leizpig-liðsins sem er á æfinga- og keppnisferð um Jótland. Í dag mætir Leipzig-liðið liðsmönnum Aalborg Håndbold.
- Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fimm mörk fyrir norska meistaraliðið Kolstad í gær í eins marks tapi fyrir dönsku meisturunum, GOG, í æfingaleik, 28:27, í Kolstad Arena í Þrándheimi að viðstöddum nærri 1.500 áhorfendum.
- Þýski landsliðsmaðurinn í handknattleik, Kai Häfner, var í gær seldur frá MT Melsungen til Stuttgart. Häfner, sem er 34 ára gamall skrifaði undir tveggja ára samning við Stuttgart. Á dögunum vöknuðu grunsemdir um að Häfner væri á förum frá MT Melsungen eftir að upplýst var að hann yrði ekki fyrirliði Melsungen á komandi leiktíð. Häfner var sem ungur handknattleiksmaður í herbúðum Stuttgart leiktíðina 2006/2007.
- Loks í gær var staðfest að samkomulag hafi náðst á milli Barcelona og Luka Cindric um starfslok en þau hafa legið í loftinu undanfarnar vikur eftir að ljóst var að Barcelona verður að skera verulega niður útgjöld. Króatinn var þungur á fóðrum.
- Cindric var ekki lengi að semja við Dinamo Búkarest eftir að hafa að vera leystur undan samningi í Barcelona. Samningur Cindric við Dinamo er til þriggja ára.
- Staðfest hefur verið að Spánverjinn Eduardo Gurbindo leikur með þýska meistaraliðinu THW Kiel á komandi keppnistímabili. Hinn 35 ára gamli Spánverji hleypur í skarðið fyrir Steffen Weinhold sem verður frá keppni um nokkurn tíma vegna axlarmeiðsla. Gurbindo var síðast hjá Dinamo í Búkarest.
- Auglýsing -